148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[10:59]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er virkilega ánægjulegt að vera kominn aftur í þennan sal eftir átta ára fjarveru. Ég hef verið að kenna nemendum mínum uppi í Háskóla Íslands að þeir megi aldrei bera saman epli og appelsínur, að slíkt væri tóm markleysa. Því lýsi ég furðu minni á málflutningi hæstv. fjármálaráðherra sem lætur eins og hér hafi ekki verið háð kosningabarátta fyrir nokkrum vikum þar sem flokkarnir lofuðu hinu og þessu. Í aðdraganda þessara kosninga var það einn stjórnmálaflokkur sem lofaði bókstaflega 100 milljarða kr. innviðauppbyggingu og það var flokkur hæstv. fjármálaráðherra, Bjarna Benediktssonar.

Auðvitað eru kosningaloforð viðbót við það sem þá hafði þegar verið ákveðið í frumvarpi síðustu ríkisstjórnar sem sprakk í haust. Hæstv. forsætisráðherra og fjármálaráðherra ná að belgja út allar tölur með því að miða við fjárlög síðasta árs en hann gleymir að hann var í haust að lofa viðbótum frá því sem þegar hafði verið lofað.

Nú hef ég lesið þetta frumvarp og ég sé hvergi þá miklu innviðauppbyggingu sem hann lofaði. Sjálfstæðisflokkurinn lofaði miklum samgöngubótum og nú kemur í ljós að viðbótin hér er einungis brot af því og þetta staðfesti vegamálastjóri í gær. Sjálfstæðisflokkurinn ætlaði líka að styrkja heilbrigðiskerfið en forstjóri Landspítalans staðfesti einnig í gær að enn vantar talsvert upp á að hægt sé að halda sjó þar, hvað þá að um sé að ræða einhvers konar innspýtingu í kerfið eins og lofað hafði verið.

Sjálfstæðisflokkurinn lofaði líka sérstöku átaki í fjölgun hjúkrunarheimila en það eru lítil merki þess í frumvarpinu, enda fær hjúkrun og endurhæfing heila 0,6% hækkun milli frumvarpa. Og þá átti að hækka fæðingarorlof, það er óbreytt, það átti að bæta í barnabætur en það er óbreytt.

Þess vegna spyr ég hæstv. fjármálaráðherra: Af hverju stendur hann ekki við loforð sem hann gaf bókstaflega fyrir einungis sjö vikum?