148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[11:01]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Manni finnst maður vera kominn í kosningabaráttuna aftur þegar á fyrstu dögum þingsins er verið að gera upp við það sem við tókumst á um fyrir kosningar og lögðum fyrir kjósendur. Ég verð að segja alveg eins og er að það er með miklu stolti sem ég kem hingað í þingið með þetta fjárlagafrumvarp, með stóraukin framlög til þeirra málaflokka sem við vildum sérstaklega beita okkur fyrir og á sama tíma er að hefjast vinnan við gerð ríkisfjármálaáætlunar til næstu ár sem við munum síðan ræða í vor.

Varðandi innviðauppbygginguna er verið að bæta í í þessu frumvarpi miðað við það sem áður var áætlað. Auðvitað mun svigrúm ríkisins í þeim efnum ekki koma í ljós fyrr en fram í sækir. Við munum á hverju ári fara yfir fjárlagafrumvarp. Við munum á hverju ári gera upp við nýja ríkisfjármálaáætlun. Þá getum við haldið áfram samtalinu um það hvernig okkur tekst til við að efna megináherslumál okkar og þar með talið innspýtingu í innviði, samfélagslega innviði, mannvirkjagerð, vegagerð o.s.frv.

Það er svarið sem ég hef fyrir hv. þingmann, að frumvarpið er í góðu samræmi við þær áherslur sem við töluðum fyrir fyrir kosningar og fengum góðan stuðning við og fylgjum því eftir í þessu.