148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[11:03]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það kemur sérkennilega fyrir sjónir að hæstv. fjármálaráðherra finnist skrýtið að ég sé að vitna í orð hans frá því rétt fyrir kosningar. Auðvitað eigum við að gera upp kosningabaráttuna og kosningarnar. Auðvitað þurfum við að ræða það sem hæstv. fjármálaráðherra lofaði þjóðinni og var kosinn til að gera.

Þess vegna finnst mér svo óforskammað að verið sé að slá ryki í augu kjósenda og talað um að hér sé á ferðinni einhver mikil innviðauppbygging þegar við sjáum svart á hvítu í þessu fyrsta fjárlagafrumvarpi að slíkt er ekki fyrir hendi. Að hækka fjármagn til heilsugæslunnar um heil 3% er engin stórsókn í heilbrigðismálum. Að láta hækkun til sjúkrahúsanna allra vera 0,35% af öllum ríkistekjunum er ekki hin mikla fjárfesting sem ríkisstjórnarflokkarnir lofuðu. Og að láta eldri borgara enn og aftur sitja á hakanum þrátt fyrir loforð allra þessara flokka sem eru í ríkisstjórn er ekki boðlegt, herra forseti.

Að koma hér rétt fyrir kosningar og lofa 100 milljarða kr. innviðauppbyggingu og skila síðan fjárlagafrumvarpi sem einungis breytir síðasta frumvarpi um 2 prósentustig eða um 15 milljarða — það er verið að móðga kjósendur með þessu.

Finnst hæstv. fjármálaráðherra í alvörunni 2 prósentustiga aukning fjármuna vera öflug innviðauppbygging? Hvenær urðu 100 milljarðar að 15 milljörðum? Þau undur virðast hafa gerst með flutningi formanni Sjálfstæðisflokksins úr forsætisráðuneytinu yfir í fjármálaráðuneytið.