148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[11:05]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það færi hv. þingmanni betur að koma hér og lista upp allar þær skattahækkanir sem hann hefði viljað sjá fylgja nýju (Gripið fram í.) fjárlagafrumvarpi, á fólkið í landinu, á vinnandi fólk, á atvinnustarfsemina og aðra þá sem ætla að standa undir þeim reikningi sem hann saknar að sé ekki birtur skattgreiðendum landsins í fjárlagafrumvarpinu. (Gripið fram í.) Hvar eru milljarðatugirnir sem hv. þingmaður ætlaði að sækja og hver átti að greiða þá? (LE: Það varst þú sem lofaðir …) Það var aldrei ég sem talaði fyrir skattahækkunum þótt Samfylkingin hafi verið sönn (LE: Þú lofaðir 100 milljörðum.) hugsjónum sínum um að tala fyrir (Gripið fram í.) hærri sköttum á vinnandi (Forseti hringir.) fólk, hærri sköttum á atvinnustarfsemina (Forseti hringir.) og hærri sköttum alls staðar þar sem hægt er að koma því við.

(Forseti (SJS): Forseti biður þingmenn að gefa hæstv. ráðherra færi á svara. Það er guðvelkomið að skrá formann Samfylkingarinnar á mælendaskrá.)

Virðulegi forseti. Staðreyndin er einfaldlega sú að þeir flokkar sem að tala hér fyrir skorti á nýjum útgjöldum, þrátt fyrir að við setjum í raun og veru met þessi árin í útgjaldavexti á milli ára — við hækkuðum útgjöldin á yfirstandandi ári um rúm 8% og við förum langleiðina í þá tölu að nýju með þessu fjárlagafrumvarpi.

Auðvitað er það ekki sjálfbært á hverju ári að láta frumgjöld ríkisútgjaldanna vaxa svo mikið ár eftir ár. Það verður ekki þannig í næstu ríkisfjármálaáætlun að vöxturinn verði slíkur. En þeir sem sakna þess að sjá ekki þau útgjöld verða þá að koma í þennan ræðustól og tala við fólkið í landinu um alla þá skatta sem þeir hefðu tryggt að fólkið ætti að greiða til þess að standa undir því. Ég heyri það frá Samfylkingunni, ég heyri það reyndar hærra eftir kosningar en fyrir kosningar, að þeir sakna þess að skattar séu ekki hækkaðir. Það verður bara svo að vera.