148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[11:14]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel að ef hv. þingmaður myndi sjá fyrir hvers konar stefnu ég hef staðið á undanförnum árum varðandi uppgreiðslu skulda og ráðstöfun einskiptistekna drægist upp mjög skýr mynd. Aldrei áður í sögu ríkisfjármála á Íslandi höfum við gert jafn mikið átak og undanfarin ár við að greiða upp skuldir. Ekkert land í Evrópu hefur lækkað skuldastöðu sína jafn hratt hlutfallslega og Ísland á undanförnum árum. Í umræðunni um ráðstöfun einskiptistekna hefur það auðvitað skipt sköpum á undanförnum árum að við værum sammála um ráðstöfun á þeim risafjárhæðum sem við höfum tryggt ríkissjóði með stöðugleikaframlögunum. Auðvitað skiptir það sköpum í umræðunni. Það markaði alla umræðu um ráðstöfun einskiptistekna að leiða fram samkomulag hér á þinginu um að þessum einskiptistekjum upp á mörg hundruð milljarða yrði að ráðstafa til uppgreiðslu á skuldum — og við gerðum það. Við ráðstöfuðum á annað hundrað milljarða inn á lífeyrisskuldbindingar og við greiddum upp aðrar skuldir. Við höfum sömuleiðis dregið úr stærð fjármagnaðs gjaldeyrisforða ríkisins, til að mynda eins og ég rakti hér áðan. Þannig að við erum að fylgja þessari stefnu.

Breyting á fjármálastefnu er eitt. Ég get verið sammála hv. þingmanni um að veruleg breyting á fjármálastefnunni er ekki góð skilaboð á viðkvæmum tímum. En það var ekki það sem ég spurði hv. þingmann um. Ég spurði hann: Trúir hann því að 5 milljarðar í heildarafkomu ríkissjóðs muni skipta sköpum í 2.500 milljarða hagkerfi? Því að 0,2% af landsframleiðslu eru um 5 milljarðar. Það er allt og sumt. Ég trúi því ekki að nokkur maður haldi því fram af alvöru í umræðunni að sú breyting, úr 1,5% niður í 1,3%, eins og fjárlagafrumvarpið gerir ráð fyrir, sé uppspretta einhverrar slíkrar umræðu, um að hér sé verið að efna til einhvers ójafnvægis. Það stenst bara (Forseti hringir.) enga skoðun.