148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[11:18]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi kynningu á frumvarpinu var því komið til fulltrúa þingflokkanna í samræmi við samkomulag sem gert hafði verið þar um eins fljótt og hægt var. Síðan fór það í almenna kynningu fyrr en átt hefur við undanfarin ár, eða klukkan níu um morguninn næsta dag.

Varðandi fjármálastefnuna held ég að við hljótum að geta verið sammála um að það sem skiptir sköpum er að ríkisstjórnin kynni samhliða þessu fjárlagafrumvarpi stefnu sína, sé fjárlagafrumvarpið ekki í samræmi við þá stefnu sem síðast var samþykkt. Það finnst mér vera aðalatriðið. Hvernig þingið meðhöndlar framhaldið, hvort þingið afgreiðir fjárlögin að fjármálastefnunni ósamþykktri, er þingsins mál. Það er ekki mál ríkisstjórnarinnar. Málið er einfaldlega komið til þingsins. Enn á eftir að mæla fyrir fjármálastefnunni. En mér finnst ekkert óeðlilegt við það að þingið taki ákvörðun um að afgreiða fjárlagafrumvarpið með einhverjum breytingum eftir atvikum án þess að fjármálastefnan sé samþykkt, en það felst auðvitað í því yfirlýsing af hálfu meiri hluta þings, sé frumvarpið samþykkt, um að það standi ekkert annað til varðandi fjármálastefnuna árið 2018 en að blessa það sem þar kemur fram.

Í mínum huga ætti þingið að taka sér nokkrar vikur í að ljúka meðferð fjármálastefnunnar, enda kemur álit fjármálaráðs ekki fyrr en rétt á milli jóla og nýárs.

Í húsnæðismálunum verð ég að vísa til þess sem hefur staðið yfir á undanförnum árum varðandi uppbyggingu almennra íbúða. Það átaksverkefni hefur gengið vel og er ágætlega fjármagnað í fjárlagafrumvarpinu. Svo verð ég að halda til haga, eins og ég vil jafnan gera þegar húsnæðismál ber á góma, að það er ekkert sem skiptir húsnæðiseigendur, (Forseti hringir.) þá sem hafa tekið lán til að kaupa sér fasteign, meira máli en efnahagslegur stöðugleiki og lægra vaxtastig.