148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[11:26]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst óska þess að ráðherrarnir verði kallaðir í salinn eins og var búið að lofa.

(Forseti (SJS): Óskar hv. þingmaður eftir að gera hlé á máli sínu þangað til allir ráðherrarnir eru mættir?)

Ég óska eftir því.

(Forseti (SJS): Það er bara svoleiðis. Forseti mun gera gangskör að því að kannað sé hvað margir ráðherrar eru í húsi og biður hv. þingmann að bíða. — Upplýst er að allir ráðherrar nema tveir eru í húsi. Þeir sem ekki þegar eru í salnum eru á leiðinni í salinn. Í þá tvo sem eru utan húss í augnablikinu verður hringt. Spurningin er: Er það ásættanlegt fyrir hv. alþingismann að flytja ræðu sína við þessar aðstæður? Svo er. Tekur hann til máls.)

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þessa tilraun. Fulltrúar Vinstri grænna sögðu í gær í þessum þingsal að við ættum bara að vera ánægð með fjárlagafrumvarpið þeirra. Að þeir væru að bjarga innviðunum, heilbrigðiskerfinu, menntakerfinu o.s.frv.

Herra forseti. Þvílíka og aðra eins vitleysu hef ég ekki heyrt lengi. Lítum aðeins á fjárlagafrumvarp Katrínar Jakobsdóttur. Í fyrsta lagi er ekkert tekið á misskiptingunni í samfélaginu. Núna eiga 5% af ríkustu landsmönnum næstum því jafn mikið af nettóeignum og hin 95%. 5% eiga næstum því jafn mikið og 95%. Er þessi misskipting í lagi að mati Vinstri grænna? Nei, a.m.k. ekki fyrir kosningar. Þá átti svo sannarlega að ráðast gegn misskiptingunni í gegnum skattkerfið, en þegar í ríkisstjórn er komið, þegar stólunum hefur verið skipt, gerist lítið sem ekkert í baráttunni fyrir jafnara samfélagi. Ef eitthvað er þá er farið í hina áttina. Skattstefna hægri manna verður ofan í stjórnarsáttmálanum, áherslan verður á lækkun tekjuskatts sem gagnast fyrst tekjuhærri hópunum en fólk með 800 þús. kr. eða meira í laun fær þrefalt meira en fólk á lægstu laununum ef þessi áform ganga eftir.

Til viðbótar á hugsanlega að endurskipuleggja fjármagnstekjuskattskerfið þannig að fjármagnseigendur eiga að fá vernd gegn verðbólgu, vernd sem almenningur og venjulegt launafólk býr almennt ekki við. Þá er áfram gert ráð fyrir að veiðigjöld séu einungis 1,2% af tekjum ríkisins. Það eru ekki margir eigendur auðlinda sem myndu sætta sig við að fá einungis um 1% af tekjum sínum frá meginauðlind sinni en íslenska þjóðin er látin gera það. Það er því ljóst að hér hefur tekið við völd ríkisstjórn stórútgerðarinnar en ekki almennings.

Lítum aðeins nánar á frumvarpið. Hér er afar mikilvægt að við berum það saman við það frumvarp sem fráfarandi ríkisstjórn lagði fram í haust og VG barðist hatrammlega gegn. Þau kölluðu meira að segja frumvarpið hægri sveltistefnu, ömurlegt frumvarp. Jæja, þá hlýtur VG að hafa gjörbreytt þessu ömurlega hægri frumvarpi. Eða hvað?

Í fyrsta lagi er engin innspýting í barnabótakerfið. Barnabætur verða nákvæmlega jafn háar og var búið að ákveða að þær yrðu. Þær verða nákvæmlega jafn háar og var búið að ákveða í ríkisfjármálaáætlun sem hæstv. heilbrigðisráðherra kallaði spennitreyju á sínum tíma. Þetta frumvarp gerir ekkert í málefnum barnafólks að þessu leyti.

Sama má segja um fæðingarorlofið, en nákvæmlega eins upphæð fer í það og var búið að ákveða í þessu ömurlega hægra frumvarpi sem VG gagnrýndi fyrir nokkrum vikum. Innkoma VG í ríkisstjórn breytir því engu þegar kemur að fjölskyldufólki.

Í öðru lagi er engin innspýting í vaxtabótakerfið. Og þar er meira að segja dregið saman um 2 milljarða í þessu frumvarpi.

Í þriðja lagi má spyrja: Hvar er stórsóknin í menntamálum? Jú, við eigum að ná Norðurlöndunum eftir átta ár, en átta ár er nú ansi langur tími í pólitík.

Ég var á fundi með formanni VG rétt fyrir kosningar þar sem hún lofaði mikilli innspýtingu í menntakerfið en það er svikið eins og margt annað. Framhaldsskólar eru sagðir fá 400 milljónir sem er heil 1,8% aukning. Samt eru framhaldsskólarnir með aðhaldskröfu upp á 600 milljónir sem VG átti ekki orð yfir í haust. Háskólarnir allir fá 1,2 milljarða. Það er engin stórsókn í menntamálum í neinum skilningi þess orðs. Háskóli Íslands fær um 800 milljónir sem er helmingi minna en formaður VG talaði um í þessum sal að væri nauðsynlegt að setja í skólann fyrir einungis nokkrum vikum. Rannsóknarstarfsemi á háskólastigi fær 0 kr. með innkomu VG í ríkisstjórn.

Í fjórða lagi eru það heilbrigðismálin sem er stærsta málið í hugum kjósenda. En þegar litið er á lista þeirra þingmála sem ríkisstjórnin ætlar að leggja fram kemur í ljós að af sex málum sem ráðherra boðar eru fimm þeirra annaðhvort mál fyrrverandi heilbrigðisráðherra eða innleiðing á ESB-tilskipun. Er þetta allur metnaðurinn hjá hæstv. heilbrigðisráðherra þegar kemur að heilbrigðismálum? Og þegar kemur að fjárfestingu í heilbrigðismálum erum við enn með fjársvelt heilbrigðiskerfi. Nákvæmlega sama upphæð fer til byggingar á nýjum spítala og var búið að ákveða fyrir kosningar og heildaraukningin í öll sjúkrahús landsins er 3 milljarðar sem er 0,35% af ríkistekjunum. Sem sagt, VG tímdi að setja 0,35% af öllum tekjum ríkisins sem viðbót í sjúkrahúsin.

Forstjóri Landspítalans staðfesti í gær að það vantar talsvert upp á að hægt sé að halda bara í horfinu, hvað þá það sé einhver innspýting eða uppbygging í kerfinu.

Herra forseti. Heilsugæslan fær 600 milljónir aukalega sem er langt í frá það sem var talað um. Þetta er 3% hækkun. Hjúkrun og endurhæfing fær enn minni hækkun, 0,6% eins og hjá fráfarandi ríkisstjórn. Er þetta sú björgun í heilbrigðiskerfinu sem hæstv. heilbrigðisráðherra sagði í gær að hún stæði fyrir?

Og hvað með húsnæðismálin? Lítum aðeins á þau. Af hverju er engin innspýting í þau eins og var búið að lofa? Fjármunir í stofnframlögin eru nákvæmlega eins og fráfarandi ríkisstjórn var búin að ákveða. Og fjárhæðin í málaflokkinn húsnæðismál er nákvæmlega sú sama upp á krónu. Þá er einungis varið 380 milljónum í úrbætur í meðferð kynferðisafbrota, en allt samfélagið hefur verið að kalla eftir stórátaki í þeim efnum. Á meðan ákveður ríkisstjórnin að verja 0,04% af tekjum sínum í það stórátak.

Átakið í loftslagsmálum sem minnst er á held ég 15 sinnum í stjórnarsáttmálanum er nánast ekkert fjármagnað aukalega frekar en aðrar áherslur VG. Jú, afsakið, forseti, þetta átak fær heilar 20 milljónir í innspýtingu frá VG, sem vill svo skemmtilega til að er nákvæmlega sama upphæð og forsætisráðherra ætlar að verja sérstaklega til að ráða sér blaðafulltrúa.

Með leyfi forseta, langar mig að vitna í hv. þingmann sem sagði úr þessum ræðustól fyrir einungis þremur mánuðum:

„Stjórnvöld eiga ekki að biðja fátækt fólk á Íslandi að bíða eftir réttlæti“.

Þessi orð sagði hæstv. forsætisráðherra, Katrín Jakobsdóttir, fyrir einungis þremur mánuðum. Nú er þessi sami einstaklingur orðinn valdamesti stjórnmálamaður landsins. Þrátt fyrir það er hún að biðja fátækt fólk á Íslandi að bíða eftir réttlæti.

Herra forseti. Við sjáum að þetta gengur ekki lengur. Við erum ellefta ríkasta þjóð í heimi, á hátindi uppsveiflunnar. Við erum enn með 6.000 börn sem líða skort. Við erum með 40% eldri borgara sem lifa undir framfærslumörkum og við erum með unga kynslóð sem hefur það verr en kynslóðin á undan, fyrsta kynslóðin í sögu Íslands myndi ég halda.

Skattbreytingarnar eru lítilfjörlegar. Tekjuöflunin er skelfileg í þessu frumvarpi. Það er mikið áhyggjuefni. Engar auknar tekjur eru fengnar af erlendum ferðamönnum. Sjávarútvegurinn er stikkfrí þegar kemur að auknum auðlindagjöldum. Engar auknar arðgreiðslur frá bönkunum og enginn er nú auðlegðarskatturinn.

Fjárlagafrumvarpið er upp á 840 milljarða. Sú breyting sem VG stærir sig af að hafa náð í gegn er 2% af heildarfjárlögunum. Áhrif VG á landsstjórnina og innkoma þeirra í ríkisstjórn er upp á 2%. VG er að ná 2% fráviki frá fjárlagafrumvarpi (Forseti hringir.) sem þeir höfnuðu algjörlega fyrir mánuði og töldu það vera merki um hægri sveltistefnu og væri ömurlegt.