148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[11:36]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna sem var allharmþrungin, tel ég vera, miðað við tilefnið. Ég held að hv. þingmaður ætti að horfa á þau mál sem hann var að vísa til, með aðeins sanngjarnari gleraugum. Hann getur ekki hafnað því að milljarður til viðbótar inn í háskólastigið frá fyrra fjárlagafrumvarpi sé raunveruleg innspýting. Þá væri hann a.m.k. sammála rektor Háskóla Íslands sem lýsti sérstakri ánægju með þá tillögu sem og þær 250 milljónir sem fyrirhugað er að renni í Aldarafmælissjóð. Það er veruleg stefnubreyting frá tíð fyrri ríkisstjórnar þar sem ekki var haldið áfram að vinna með þann sjóð. Ég lýsi því furðu á harmi þingmannsins.

Síðan vil ég segja, af því að hv. þingmaður ræðir hér um skattamálin sem ég hef nú oft rætt í þessum sal eins og allir vita, að sú skattbreyting sem gerð er í fjárlagafrumvarpinu er til að mynda hækkun fjármagnstekjuskatts, sem er mikilvægasta leiðin til að draga úr þeim ójöfnuði sem hv. þingmaður vísaði til. Ef við þekkjum og kynnum okkur það hvernig við viljum draga úr ójöfnuði í samfélaginu er það rétt sem við höfum oft tekist á um hér, að ójöfnuðurinn felst síður í tekjum og meira í eignum, þannig að mestu skiptir hvernig við skattleggjum ýmist tekjur af eignum eða eignirnar sjálfar.

Hv. þingmaður veit það líka ef hann setti sanngirnisgleraugun á nefið, að þeir flokkar sem töluðu fyrir auðlegðarskatti fyrir síðustu kosningar, þ.e. mín hreyfing og hreyfing hv. þingmanns, fengu samanlagt 29% í kosningum. Engir aðrir flokkar tóku undir þær hugmyndir. Það er vandséð að þær hefðu fengið brautargengi í þessum sal.

Af því að hv. þingmaður talar um að ég sé að svíkja það sem ég hafi sagt hér um að fólk eigi ekki að þurfa að bíða eftir réttlæti, þá stend ég við það og segi: Það er þá mikilvægara að reyna að horfa til þess að taka ábyrgð á því sem er að gerast fremur en að sitja hjá og gagnrýna, sem er auðvitað líka leið til að hafa áhrif í stjórnmálum. Ég tel, og það er ekki hægt að horfa fram hjá því, að efling menntakerfisins sé leið til að jafna kjör í þessu (Forseti hringir.) samfélagi — eða er hv. þingmaður ekki sammála mér um það? Að minnsta kosti ef við horfum á hefðbundnar kenningar jafnaðarmanna. Það að draga úr greiðsluþátttöku aldraðra og öryrkja til að mynda í tannlækningum er leið til að (Forseti hringir.) jafna kjörin í þessu samfélagi. Sú skattbreyting sem hér fer í gegn snýst um fjármagnstekjur. Hún er leið til þess að jafna kjörin (Forseti hringir.) í þessu samfélagi. Er hv. þingmaður (Forseti hringir.) ósammála mér um það?