148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[11:41]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður hefur kosið eins og ég segi að skilja sanngirnisgleraugun eftir heima ef hann hafnar því til að mynda að það sem er verið að gera hér fyrir menntakerfið sé viðsnúningur frá stefnu síðustu ríkisstjórnar sem vildi fara í þá vegferð að skerða framhaldsskólana þvert á það sem lofað hafði verið í tíð þarsíðustu ríkisstjórnar. Þessi ríkisstjórn er að fara að styrkja háskólana. Hv. þingmaður talar hér um samkeppnissjóði á sviði rannsókna og vísinda. Hann veit það fullvel, alveg eins og ég, að þá er búið að styrkja á undanförnum árum. Þörfin er í undirstöðunum, það er í sjálfum háskólunum, þess vegna er forgangsröðunin þangað. Hv. þingmaður veit það alveg jafn vel og ég. Hann getur komið hér upp og lýst harmi, en hann veit alveg að það er þar sem skórinn kreppir. Þarna þarf að forgangsraða fjármunum.

Hv. þingmaður gerir lítið úr þeirri skattbreytingu að hér sé verið að hækka fjármagnstekjuskattinn. Ég spurði hv. þingmann mjög einfaldrar spurningar áðan. Hann gat ekki svarað athugasemd minni í sínu svari, þ.e. hvort hann teldi að það væri meirihlutastuðningur í þessum sal við þá stefnu að setja til að mynda á auðlegðarskatt og hvort hann væri ekki sammála því að besta leiðin til að nýta skattkerfið til jöfnunar væri þá að horfa á tekjur af eignum. Hann virti þessar athugasemdir ekki svars. Um það snýst þetta.

Ég átta mig ekki á því hvort hv. þingmaður hefur talið að við undirbúning þessa fjárlagafrumvarps yrðu öll loforð fyrir síðustu kosningabaráttu uppfyllt. Að sjálfsögðu ekki. Við þurfum að vinna samkvæmt langtímasýn. Er það ekki það sem alltaf er kallað eftir í þessum sal? Ætlum við ekki að gera skynsamlega fjármálaáætlun til uppbyggingar? Er ekki hv. þingmaður sammála því, eins og a.m.k. þingmenn hans flokks hafa iðulega talað fyrir, að taka þurfi húsnæðisstuðning hins opinbera til gagngerrar endurskoðunar? Eða vill hv. þingmaður að hér séu bara teknar ákvarðanir á nokkrum dögum án þess að horft sé til lengri tíma hvernig við getum nýtt húsnæðisstuðninginn til að þjóna betur þeim sem þurfa á honum að halda? Þá er ég að hlusta eftir því sem fulltrúar hans flokks hafa talað fyrir á undanförnum árum þar sem hefur verið farið í mismunandi aðgerðir sem hafa ekki endilega þjónað þeim hópum sem mest þurfa á húsnæðisstuðningi að halda, (Forseti hringir.) þ.e. ungu fólki og tekjulágu fólki.