148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[11:46]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna og langar að eiga við hann orðastað um nokkur mál sem lúta að heilbrigðiskerfinu. Ég vil þakka honum fyrir að vera mér liðsmaður í því að gera miklar kröfur þar og hafa miklar væntingar til þess að í ríkisfjármálaáætlun á næsta ári séum við að tala um sókn til framtíðar í þeim málaflokki. Þjóðin skrifaði undir ákall til stjórnvalda á sínum tíma undir forystu Kára Stefánssonar um það að við ættum að stefna að því að 11% vergrar landsframleiðslu færu í heilbrigðisþjónustuna. Þar var reyndar kostnaðarþátttakan inni.

Hv. þingmaður kemur úr háskólaumhverfinu og vill að við berum ekki saman epli og appelsínur og pössum okkur á því hvaða tölur við erum að fara með. Mig langar að nefna það að þegar hv. þingmaður talar um stöðu Landspítalans, sem er auðvitað burðarvirki í íslensku heilbrigðiskerfi, grunnþáttur þar, að Landspítalinn hefur milli 64 og 65 milljarða á ári til þess að standa straum af sínum útgjöldum og rekstri. Það sem út af stendur að mati forstjóra spítalans er innan við 1% af því sem þar er, eða 600 millj. kr. Ég vil spyrja hv. þingmann um það hvort hann telji þetta vera svo dramatískt sem hann lætur í skína á þessum tímapunkti.

Ég vil líka biðja hann um það, vegna þess að sanngirnisgleraugun eru greinilega á borðinu hjá honum og hann tekur þau upp endrum og sinnum, að fletta upp á bls. 245 í fjárlagafrumvarpinu þar sem talað er um 698 millj. kr. framlag til innleiðingar aðgerðaáætlunar um úrbætur í meðferð kynferðisbrota. Þegar hann og aðrir þingmenn Samfylkingarinnar fara háðuglegum orðum um 20 millj. kr., sem eru sérstaklega undir heilsugæslunni til þess að styðja við brotaþola, vil ég spyrja hvort honum þyki (Forseti hringir.) það sæma að láta það duga þegar talað er um átak fyrir brotaþola kynferðisbrota.