148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[11:48]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Auðvitað finnst mér það sæmandi að gagnrýna þessa lágu upphæð. Mér finnst ekki sæmandi að hafa 20 milljónir til að byrja með. Við eigum að setja miklu meiri pening í þetta, hæstv. forseti. Hæstv. heilbrigðisráðherra hélt innblásna ræðu í gær og sagði bókstaflega að við ættum að þakka henni og hennar félögum fyrir að vera að bjarga heilbrigðiskerfinu. Það er bara ekkert staðan. Forstjóri Landspítalans er búinn að benda á það, bara í gær, að þetta dugar ekki einu sinni til að halda í horfinu, hvað þá að hér sé á ferð einhvers konar innspýting eða uppbygging í heilbrigðiskerfinu sem hæstv. heilbrigðisráðherra hefur bæði í ræðu og riti kallað eftir á meðan hún var hinum megin við borðið.

Sjúkrahúsið á Akureyri er líka ósátt. Heilbrigðisstofnun Austurlands er líka ósátt. Það sér enginn þessa innspýtingu sem hæstv. heilbrigðisráðherra telur sig vera að standa fyrir.

Hæstv. heilbrigðisráðherra tók undir bænaskjal 80.000 Íslendinga sem kölluðu eftir stórauknum fjárfestingum í heilbrigðiskerfinu. Hvernig stendur á því að hæstv. heilbrigðisráðherra setur einungis 0,35% af ríkistekjunum í þetta stórátak? Af hverju er ekki sett meira? Við getum sett meira. Við getum aflað tekna til að fjármagna heilbrigðiskerfið. Þjóðin hefur verið að kalla eftir því. Þetta er ekki flókið. Það er pólitískur vilji að setja meiri pening í heilbrigðiskerfið. Sá vilji var fyrir hendi hjá hæstv. heilbrigðisráðherra á meðan hún var í stjórnarandstöðu. Nú er hún komin í stól ráðherra, þá breytist nú tónninn. Þá má helst ekki tala um þetta og þá er ekki sæmandi að gagnrýna lágar upphæðir.