148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[11:50]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svörin. Af því að viljum tala hér um stóru línurnar, og ég held að skipti miklu máli þegar við tölum í þessum þingsal um stöðu heilbrigðismála, er breytingin milli ára þannig að á yfirstandandi ári setjum við 195 milljarða í málaflokkinn. Á næsta ári 217 milljarða. Það er yfir 10% aukning milli ára í þennan málaflokk. En ég er sammála hv. þingmanni; betur má ef duga skal. Ég vænti þess að hv. þingmaður og þingmenn stjórnarandstöðu flokkanna standi að því að við reynum að mynda hér breiða sátt um áherslu í þágu heilbrigðisþjónustunnar á Íslandi. Það þurfum við að gera. Það er í samræmi við það ákall sem Kári Stefánsson stóð fyrir á sínum tíma og Íslendingar hafa ítrekað í skoðanakönnunum og í ýmiss konar viðhorfskönnunum lagt áherslu á að eigi að vera í algjörum forgrunni. Við höfum meira að segja verið í þeirri stöðu með íslenska heilbrigðiskerfið að það hefur ekki náð meðaltali OECD-ríkjanna. Það hefur ekki náð meðaltali OECD-ríkja hvorki hvað varðar ríkisframlög né heildarframlögin til málaflokksins.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann telji að við eigum, sameinuð hér í þingsal, að stefna að því að ná yfir meðaltal OECD-ríkjanna og jafnvel upp í þau 11% sem hér hefur verið talað um. Hvað telur hann æskilegt eða eðlilegt að kostnaðarhlutdeild sjúklinga sé mikil? Raunin er 20% hér á Íslandi, sem er að mínu mati allt of hátt í ríki sem kennir sig við velferð. Við eigum að stefna að því að lækka það svo miklu nemi. Ég treysti jafnaðarmannaflokki Íslands til þess að vera mér liðsmaður í því.