148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[12:28]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég hefði ekki viljað hafa þetta svona. Það er bara mjög einfalt mál. Ég stóð með þessum lögum að mestu leyti, þó ekki öllu. Ég var ein af fáum, held ég, sem gerði það ekki á sínum tíma vegna þess að ég taldi vera ákveðna annmarka á þeim og tel enn.

Mér finnast lögin ekki hafa gert ráð fyrir því að hér sé kosið árlega. Þótt sagt sé að maður sé að skýla sér á bak við það kosningaástand sem ríkt hefur hér þá er það náttúrulega partur af þessu. Fjármálastefnan er lögð fram þannig að það sést á hverju fjárlagafrumvarpið byggir þótt stefnan verði ekki samþykkt. En auðvitað þurfum við einhvern veginn að komast í gegnum eins árs ferli með ný opinber fjármál. Við höfum ekki gert það enn þá. Ég vonast til þess að við náum að fylgja lögunum varðandi framlagningu og annað slíkt.