148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[12:37]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Frú forseti. Nokkrar spurningar til hv. þingmanns, sem mér fannst vera með óþarflega mikinn afsökunartón í ræðu sinni. Annan daginn í röð heyrum við ákveðinn afsökunarþreytutón í máli þingmanna og ráðherra Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs en kannski er það líka af því að hæstv. fjármálaráðherra var mjög raunsær og varaði við því að frumgjöld á næstu árum myndu ekki vaxa eins mikið og menn hefðu vonast eftir. Hann sagði í rauninni áðan: Róið ykkur, kæru þingmenn Vinstri grænna og annarra, útgjöld munu ekki aukast svona mikið. Að vissu leyti finnst mér það ákveðið heilbrigðismerki, því að það eru vísbendingar í þessu fjárlagafrumvarpi um aukin lausatök í ríkisfjármálum.

Ég var á fundi með talsmönnum allra flokka fyrir kosningar þar sem við vorum öll spurð að því hvort afgangur á fjárlögum væri nægilega mikill í því frumvarpi sem var lagt fram þá, 44 milljarðar. Allir flokkar nema einn, Píratar, við skulum halda því til haga, sögðu að þetta væri nægilegur afgangur. Allar helstu stofnanir, alþjóðastofnanir sem og stofnanir hér innan lands, hafa varað við því að minnka afganginn. Þegar hagvöxturinn hefur verið á blússandi ferð og við sjáum að það verður niðursveifla verðum við að halda áfram að greiða niður skuldir og lækka vaxtakostnað ríkisins.

Fyrsta spurningin er: Sálfræðiþjónusta, geðlækningar, við fögnum því sérstaklega. Sér hv. þingmaður þetta þannig að það verði eingöngu styrkt á kostnað stofnana eða innan stofnana eða sér hv. þingmaður ríkisstjórnina leita til sérfræðinga og aðila utan stofnana?

Í öðru lagi. Hv. þingmaður segir að þetta muni batna á milli 1. og 2. umr. Hvað þýðir það að þetta geti batnað? Er það einfaldlega aukin útgjöld eða hvað þýðir það að frumvarpið sem slíkt muni batna milli 1. og 2. umr. og meðferðar þingsins?