148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[12:39]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég er ekki í neinum afsökunartón hér, alls ekki. Ég studdi þetta ríkisstjórnarsamstarf og ég styð forsætisráðherra minn til góðra verka og treysti henni fullkomlega til þess, ásamt okkur þingmönnum stjórnarmeirihlutans, að ná fram áherslum okkar Vinstri grænna að mjög miklu leyti. Ég held að við gerum það í góðri samvinnu við samstarfsflokkana.

Ég velti því fyrir mér þegar hv. þingmaður talar um að sýna þurfi svolítið aðhald og gæta sín og allt það, sem Viðreisn hefur töluvert talað um. Það hefur komið fram í máli sumra þeirra áður og utan þings að það mætti ekki hækka laun og annað slíkt nema afar takmarkað. Hvenær eigum við að byggja upp? Við virðumst aldrei geta byggt upp. Það má ekki byggja upp vegna þess að það er þensla. Það má ekki byggja upp vegna þess að það eru ekki til peningar. Það er einhvern veginn aldrei hægt að byggja upp innviði. Það er aldrei hægt að gera betur við fólk. Ég lít svo á að þessi ríkisstjórn sé mynduð um það að við ætlum bæði að gera vel við fólk, hvar svo sem það stendur í samfélaginu, alla landsmenn, og byggja upp góða innviði.

Varðandi sálfræði- og geðaðstoð. Við horfum auðvitað fyrst og fremst inn á heilsugæslurnar, við horfum inn á þær stofnanir sem við höfum, eins og BUGL og fleiri stofnanir sem snúa að börnum. Það hefur auðvitað verið forgangsmálið. Annað hefur í sjálfu sér ekki verið rætt, alla vega ekki innan hreyfingar okkar.

Þegar ég tala um að eitthvað geti batnað þá held ég ævinlega að öll mál sem þingið fjallar um geti tekið breytingum og batnað þess vegna, hvort sem það er í formi aukinna útgjalda eða hvernig svo sem það er. Þegar við tölum um fjárlög er það nú gjarnan þannig.