148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[12:42]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er alveg makalaust að hlusta hér á þingmenn segja að allt hafi verið í kaldakoli og síðan eftir 29. október hafi allt batnað. Útgjöld ríkisins hafa verið aukin stórkostlega á síðustu þremur til fjórum árum. Það hefur verið uppbygging í innviðum, sama hvaða flokkar hafa komið að. Við skulum hafa hlutina á hreinu. Það hafa ágætir hlutir verið gerðir í uppbyggingu innviða á síðustu misserum og árum. Það gerðist ekki allt í einu núna á síðustu vikum.

Mér segir svo hugur að það að batna þýði í hugum Vinstri grænna aukin útgjöld. Þá vil ég einfaldlega fá að vita: Er samkomulag meðal stjórnarflokkanna um að auka útgjöld milli umræðna? Það skiptir gríðarlega miklu máli að fá að vita það.

Í öðru lagi, og ég mun koma inn á það í ræðu minni á eftir, hef ég áhuga á að spyrja hæstv. umhverfisráðherra um kolefnisgjöldin. En ég vil spyrja hv. þingmann og fá helst svar: Sér hv. þingmaður það að kolefnisgjöldin muni hækka enn frekar? Það er verið að boða 50% hækkun. Við fulltrúar stjórnmálaflokkanna vorum á fundi í Norræna húsinu þar sem allir flokkar sögðust ætla að standa við kolefnishækkunina sem var boðuð í fyrra (Forseti hringir.) frumvarpi. Hvernig sér hv. þingmaður þróun kolefnisgjalda til þess að vinna gegn loftslagsvánni?