148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[12:43]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það voru ekki mín orð að hér hefði allt verið í kaldakoli. En það er samt sem áður þannig, og því getur hv. þingmaður ekki neitað, að ákallið um aukna uppbyggingu í innviðum í samgöngukerfinu, heilbrigðiskerfinu, menntakerfinu væri ekki til staðar ef það væri allt í góðu gengi, ekki satt? Ef við værum með eldra fólk og öryrkja og alla á þeim stað sem allir væru „ligeglad“ með væri ekki þetta ákall.

Hér eru fyrstu skref ríkisstjórnar okkar í að gera betur, bara svo að það sé sagt. Ég er ekki að gera lítið úr því sem áður hefur gerst, alls ekki. Það hefur ekkert með það að gera. Það er meira að segja tekið fram í stjórnarsáttmálanum og nefnt, það sem áður hefur verið gert.

Varðandi kolefnisgjöldin: Já, ég sé fyrir mér að þau hækki, eins og kemur fram, ekki gleyma því. Það kemur fram að þetta sé eitt af þessum fyrstu skrefum en þau komi til með að hækka. Við eigum að byggja upp innviðina (Forseti hringir.) til þess að þeir geti tekið á móti því m.a. að við getum hafið orkuskipti og annað í bílaflotanum sem einhverju nemur. En það gerist heldur ekki, við erum ekki tilbúin til þess úti um allt land. Það er bara ekki þannig. Þess vegna þurfum við að fara gætilega. Og við erum ekki heldur með ýmislegt fleira sem var í frumvarpinu sem gerði þessa hluti enn erfiðari og ég t.d. gagnrýndi, olíugjaldshækkun og annað.