148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[12:45]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér við 1. umr. frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2018. Þar sem þetta er fyrsta ræða mín á þessu þingi vil ég byrja á að nota tækifærið og óska nýjum hv. þingmönnum til hamingju með árangurinn og kjörið. Þá vil ég óska nýrri hæstv. ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur, hæstv. forsætisráðherra, velfarnaðar í störfum. Ég styð þessa ríkisstjórn heils hugar, eðlilega.

Áherslur ríkisstjórnarinnar, sem við höfum séð í allítarlegum stjórnarsáttmála, birtast í fjárlagafrumvarpinu, eða fyrstu skrefin, eins og komið hefur fram í umræðu. Ég vil í fyrsta lagi nálgast umræðuna á almennari nótum og áherslur hæstv. ríkisstjórnar og þær forsendur sem liggja til grundvallar. Þegar ég nefni forsendur má segja að þær séu efnahagslegar, eins og gert er ráð fyrir í frumvarpinu sjálfu, og að einhverju marki pólitískar. Ég vísa til stjórnarsáttmálans.

Í annan stað vil ég ræða þetta frumvarp sem nefndarmaður hv. fjárlaganefndar og það starf sem bíður nefndarinnar við að rýna frumvarpið og í samhengi við þá umgjörð sem lög um opinber fjármál setja því starfi.

Hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra Bjarni Benediktsson fór vel yfir efnahagslegar forsendur í framsögu sinni og megináherslur sem er að finna í frumvarpinu á milli fjárlagaára. Það er í sjálfu sér ekki ástæða til annars en að fagna því sem þar kemur fram. Hæstv. ríkisstjórn leggur upp með að taka hér mikilvæg skref að sterkara samfélagi, sem lofað er í stjórnarsáttmála. Ég nefni auknar fjárveitingar til heilbrigðismála og velferðarmála, í heilsugæslu og sjúkrahúsþjónustu, bæði í höfuðborginni og á landsbyggðinni, aukin framlög til lyfjakaupa, til niðurgreiðslu á tannlæknakostnaði til aldraðra og öryrkja, hækkun á frítekjumarki og atvinnutekjur aldraðra. Sótt er fram í menntamálum, sannarlega, og framlög bæði til háskóla og framhaldsskóla eru aukin og stefnt er að því að auka gæði náms, sem hlýtur alltaf að vera ánægjulegt markmið. Þá horfum við á viðsnúning í samgöngu- og fjarskiptamálum, en auðvitað hlýtur takmarkið á einhverjum tímapunkti fyrir Alþingi að vera að virða þá samgönguáætlun sem Alþingi samþykkir á hverju ári. Það er umræða út af fyrir sig og stærri en við 1. umr. fjárlaga.

Á sama tíma og hér er sannarlega verið að auka útgjöld til innviða og mæta uppsafnaðri fjárfestingarþörf er lögð áhersla á að varðveita þann árangur sem náðst hefur í efnahagsmálum þjóðarinnar á undanförnum misserum. Þar er mjög mikilvægt að horfa til þess að skila jákvæðri afkomu. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir 35 milljarða afgangi af heildarjöfnuði, um það bil 1,3% af vergri landsframleiðslu. En jákvæður frumjöfnuður upp á 94 milljarða undirstrikar í raun mikilvægi þess að halda áfram að lækka skuldir og vaxtagjöld og geta þannig aukið framlög enn frekar til fjárfestingar innviða og velferðar.

Á sama tíma er mikilvægt að hagvöxtur verði hér sjálfbær og áframhaldandi efnahagslegur verðlagsstöðugleiki.

Ljóst er að mikil vinna í knöppum tímaramma bíður þingsins og hv. fjárlaganefndar, að rýna frumvarpið, fara í saumana á fjölda málefnasviða og málaflokkum þeim tengdum, taka á móti gestum og kalla eftir frekari upplýsingum. Í lögum um opinber fjármál sem gilt hafa frá 1. janúar 2016 er meðal annars lagt upp með langtímahugsun, stöðugleika og aga við framkvæmd fjármála. Heildstæðari nálgun með samráði við sveitarfélögin, samanber 11. gr. þessara laga, og meiri áhersla er á bættan árangur í ríkisrekstri og eftirlit með framkvæmd opinberra fjármála. Þess sjáum við sérstaklega stað í því verklagi sem lögfest er í 4. gr. þessara laga þar sem ríkisstjórn skal, eftir að hún er mynduð, móta fjármálastefnu til fimm ára sem ráðherra leggur fram á Alþingi eigi síðar en samhliða framlagningu þess frumvarps sem við ræðum hér. Ég held að við hv. alþingismenn verðum að sýna þeirri stöðu sem upp kemur vegna tíðra kosninga ákveðið umburðarlyndi. Ég get ekki annað en tekið undir þá umræðu sem fram fór milli hæstv. fjármálaráðherra og hv. þm. Björns Levís Gunnarssonar.

En að sama skapi kemur fram ný fjármálaáætlun, væntanlega í mars, eða eigi síðar en 1. apríl, eins og lögin kveða á um, til næstu fimm ára. Hún byggir á þeirri stefnu. Öll umgjörð opinberra fjármála hefur þannig verið treyst til muna og aðkoma Alþingis sömuleiðis með aukinni áherslu á eftirlitsþáttinn. Þannig er stóraukin áhersla lögð á mat á árangri með þessu tæki stefnumótandi áætlanagerðar. Mikilvægt er að hafa í huga nú við umræðu fjárlaga að vinnan sem fram undan er; eftirlit og fylgni við framkvæmd fjárlaga, mat á framgangi stefnu og ekki síst ávinningi af ráðstöfun fjármuna, og fjárheimildir til málasviða og málaflokka, er ekki síður mikilvæg en rýnin sjálf sem fram fer í hv. fjárlaganefnd að hluta til og svo þinginu öllu í umræðum.

Þannig getum við unnið að umbótum og að því marki að nýta fjármuni með skilvirkari hætti og vinna að markvissari forgangsröðun fjármuna sem hlýtur alltaf að vera endamarkmiðið.