148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[13:08]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur umræðuna og þessar spurningar sem eru mjög mikilvægar en kannski ekki þannig að ég geti svarað þeim á þessum stutta tíma eins og ég vildi. Það sem ég skildi eftir í fyrra andsvari voru samgöngumál í Suðvesturkjördæmi. Það er gott að vita til þess að eiga bandamann þar. Í þessum töluðu orðum er nú verið að halda upp á það og fagna og skála fyrir mögulega (BHar: Borgarlínu.) mislægum gatnamótum í Krýsuvík. (Gripið fram í.)

Í þessu fjárlagafrumvarpi er lagt upp með, ef við tökum Hafnarfjörð, framkvæmdir við hringtorg sem hefur verið hættulegt og mikill umferðarhnútur við Kaplakrika. Það er auðvitað mjög aðkallandi að klára Arnarnesveg í gegnum Kópavog. Svo er umferðin í gegnum Mosfellsbæ orðin gríðarlega mikil og um Kjósarskarðsveg, umferðin þar, bæði flutningar og ferðamenn. Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni, (Gripið fram í.)það er af mörgu að taka. Ég held að vettvangur samgönguáætlunar verði notaður til þess að klára þá umræðu.