148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[13:48]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér fjárlög fyrir árið 2018. Það kemur kannski ekki á óvart að ég ætla ekki að gera efni þessa fjárlagafrumvarps mikið að umtalsefni. Það er nokkuð í takt við það fjárlagafrumvarp sem lagt var fram af síðustu ríkisstjórn síðastliðið haust, þó með þeim frávikum helstum að nokkuð er aukið í útgjöld. En forgangsröðun fjármuna í þessu fjárlagafrumvarpi og sú aukning sem þar er að finna er nokkuð í takt við áherslur Viðreisnar í málaflokknum. Við sjáum áfram verulega áherslu á uppbyggingu í velferðarkerfinu, áframhaldandi aukningu í framlögum til almannatrygginga, aukningu í framlögum til menntakerfisins. Allt er það mjög gott og ánægjulegt að sjá.

Það sem ég hef mestar áhyggjur af, og hefur svo sem komið fram í máli mínu áður, er aðhaldsstig ríkisfjármálanna, sem er bæði umtalsvert minna í þessu fjárlagafrumvarpi samanborið við það sem lagt var fram í haust. En það sem verra er að boðað er í þeirri fjármálastefnu sem lögð hefur verið fram samhliða þessu fjárlagafrumvarpi að það verði minnkað enn frekar eftir því sem líður á kjörtímabilið og raunar strax umtalsvert til viðbótar strax á næsta ári.

Hæstv. fjármálaráðherra spurði áðan hvaða máli 5 milljarðar skiptu til eða frá, eða þess vegna 10, eða þá 20. Jú, auðvitað skipta þeir verulegu máli því að það er á þessum tímapunkti í hagsveiflunni sem við höfum alltaf misstigið okkur hingað til, alltaf misst tökin, einmitt á einum mikilvægasta hrekknum í hagstjórninni sem eru ríkisfjármálin.

Ef við horfum til reynslunnar af hruninu, þeirra hillumetra af skýrslum sem skrifaðar voru um orsakir þess og afleiðingar, er þar ítrekað verið að benda á skort á nægjanlegu aðhaldi á þenslutímum í ríkisfjármálum. Við höfum gert ýmislegt til að reyna að bæta þar úr. Við höfum stofnað til sérstaks þjóðhagsvarúðarráðs. Við höfum stofnað sérstakt fjármálaráð. Við höfum sett lög um opinber fjármál. Þau lög voru reyndar gagnrýnd á sínum tíma fyrir að þær aðhaldsreglur sem þar er að finna dygðu sjaldan til þess að beisla ríkisfjármálin einmitt á þessum tímapunkti, í þenslu. Því til stuðnings var m.a. rætt um að engin af þeim varúðarreglum sem þar væri að finna hefði gripið þá miklu þenslu sem var í ríkisfjármálunum á árunum 2005–2007. Sú gríðarlega óábyrga útgjaldastefna sem þeim fjárlögum fylgdi hefði öll rúmast innan þeirra reglna sem er að finna í lögum um opinber fjármál. Það er því miður svo að það eina sem virðist beisla ríkisfjármálin er einfaldlega hversu mikið fé er í kassanum.

Þess vegna er áhyggjuefni að sjá að nú er enn og aftur verið að endurtaka sömu mistök. Af hverju skiptir þetta máli? Við tölum um samkeppnisskilyrði útflutningsatvinnuvega okkar, sér í lagi á tyllidögum. Það eru einmitt ríkisfjármálin sem þrengja að þessum sömu samkeppnisskilyrðum á þessum tímum. Þegar ríkisfjármálin axla ekki hlutverk sitt í hagstjórn eru vextir hærri en ella og gengi sterkara en ella. Á það hefur ítrekað verið bent og ítrekað varað við því, en við virðumst því miður ekki ætla að læra mikið af því.

Það er kannski þess vegna sem við glímum við það umhverfi á Íslandi að útflutningsatvinnugreinar okkar eru fyrst og fremst auðlindagrundvallaðar, því að annað hefur ekki þrifist í þeim óstöðuga efnahagsjarðvegi sem við höfum skapað, eins og tækni- og þekkingarfyrirtæki. Það er alltaf sama vandamál sem þau fyrirtæki glíma við og við ætlum nú að endurtaka þann leik enn og aftur. Á sama tíma tölum við um mikilvægi þess að efla og fjárfesta í þekkingu, að framtíðartækifæri okkar liggi í fjórðu iðnbyltingunni. Ef við ætlum að hagnýta okkur þau tækifæri sem felast í fjórðu iðnbyltingunni þurfum við að byrja á að ná tökum á okkar eigin hagstjórn, að ná að skapa stöðugleika fyrir þau fyrirtæki sem eiga einmitt að geta vaxið og dafnað á grundvelli fjórðu iðnbyltingarinnar.

Áhyggjur mínar helgast fyrst og fremst af þessum þáttum. En það er líka vert að hafa í huga þegar talað er um það fjárlagafrumvarp sem hér liggur fyrir.

Það er áhugavert að fylgjast með skoðanaskiptum þingmanna Vinstri grænna og Framsóknarflokks, sem áður hallmæltu mjög fjármálastefnu fyrri ríkisstjórnar og fjárlagafrumvarpi, töluðu um sveltistefnu, en fylkja sér nú að baki lítt breyttu frumvarpi aðeins fáeinum vikum síðar. Það er svo sem ekkert nýtt að skoðanir breytast hratt milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Það er áhugavert að sjá að það gerist á undraskömmum tíma núna. En það er ágætt að hafa í huga þegar talað er um hvenær megi byggja upp, hvenær megi efla stoðir samfélagsins, að verði áform þessa fjárlagafrumvarps að veruleika hafa útgjöld ríkissjóðs aukist um 110 milljarða frá fjárlögum ársins 2016. Það er, að ég hygg, um 16% aukning á útgjöldum ríkissjóðs á ekki lengri tíma en það. Þeim útgjöldum hefur fyrst og fremst verið varið til velferðarkerfisins, til menntakerfisins. Forgangsröðunin þar hefur verið alveg ágæt. Segja má bæði síðustu ríkisstjórn og ríkisstjórninni þar á undan það til hróss að þetta voru megináherslurnar sem var að finna í þeirri útgjaldaaukningu og því ber að fagna. En við þurfum líka að gæta að okkur, sér í lagi á þessum tímum þegar búið að auka enn á hagvaxtarspá þessa árs, og vara enn frekar við hættunni á ofþenslu. Seðlabanki gerði það nú síðast í fyrradag, og varaði við að halda vöxtum óbreyttum, m.a. með vísan til áhyggna sinna af stöðu opinberra fjármála og aðhaldsleysi þeirra. Væntanlega megum við þá vænta vaxtahækkana Seðlabanka þegar fjármálastefna og fjárlögin verða samþykkt.

En það er líka vert að hafa í huga þegar við ræðum ríkisfjármálin að við leysum ekki öll vandamálin bara með auknum útgjöldum. Þess vegna þætti mér áhugavert að eiga hér orðastað við þrjá ráðherra sem hafa einmitt hver um sig mikil tækifæri til að gera betur með það fjármagn sem þegar er varið til kerfisins.

Þar má fyrstan nefna hæstv. heilbrigðisráðherra. Landlæknir hefur ítrekað rætt um að vandamál heilbrigðiskerfisins verði ekki bara leyst með auknum fjárútgjöldum. Það þarf að horfa til skipulagsbreytinga, það þarf að horfa til aukinnar skilvirkni og betra skipulags. Mér þætti áhugavert að heyra skoðanir heilbrigðisráðherra þar á.

Það sama má segja um menntakerfið okkar. Við horfum til þess að jafna hér útgjöld til háskólakerfisins til þess sem tíðkast í ríkjum OECD og hinum Norðurlöndunum. Mér þætti áhugavert að heyra mat hæstv. menntamálaráðherra á því hvar við erum nákvæmlega stödd í þeim samanburði í dag því að þær tölur sem við ræðum gjarnan um eru að verða fjögurra ára gamlar. Mikið hefur breyst síðan; bæði hefur gengið styrkst, útgjöld til málaflokksins hafa verið aukin verulega og nemendum hefur fækkað. Ég geri ráð fyrir að þessir mælikvarðar séu aðrir og hagstæðari í dag en þeir voru þá. En það skiptir ekki síður máli að við horfum til þess hvernig við framkvæmum menntastefnu okkar í fjárveitingu í gegnum fjármögnunarkerfið eða reiknireglurnar sem við veitum fjármagn eftir til menntakerfisins. Það á bæði við um háskólastigið og framhaldsskólastigið þar sem við vitum að verk- og tæknigreinarnar sem við viljum leggja miklu meiri áherslu á, eru kostnaðarsamari. En stjórnvöld hafa í raun aldrei fylgt eftir stefnu sinni í þeim málum að vilja efla þessa þætti með því að veita fjármagn og breyta reiknireglunum þannig að þær auki árangur skólanna við að efla þennan þátt.

Í þriðja lagi er gríðarlegt áhyggjuefni hversu mikið örorkubyrði hefur aukist hér á landi á undanförnum árum. Það eru öll teikn á lofti um að svo verði áfram. Þess vegna þætti mér áhugavert að heyra sjónarmið hæstv. félags- og jafnréttismála: Hvernig getum við framkvæmt og hvaða umbætur getum við gert í núverandi fyrirkomulagi til að auka hvatann til virkni meðal fólks og ná betri árangri í að snúa fólki aftur út á vinnumarkaðinn? Það skiptir ekki síður máli. Það skiptir ekki bara máli fyrir kostnað ríkissjóðs, það skiptir alveg gríðarlega miklu máli fyrir lífsafkomu og lífsgæði þess fólks sem er á örorkubótum hvernig við getum aukið hvata örorkulífeyriskerfisins til atvinnuþátttöku. Mér þætti áhugavert (Forseti hringir.) að heyra sjónarmið ráðherra í því efni.