148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[14:01]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svör í andsvari. Það sem ég velti fyrir mér, til þess að kalla eftir aðeins nánari skilningi á skoðunum og stefnu ráðherra þegar kemur að endurskipulagningu heilbrigðiskerfisins, er að í nýlegri McKinsey-skýrslu, sem unnin var fyrir Landspítalann, var meðal annars bent á að einn augljós veikleiki þessa kerfis væri að það vantaði í raun sterkari stýringu. Við værum með of mikla síló-hugsun, ef þannig mætti orða það, þ.e. hver stoð kerfisins vinnur með einangruðum hætti; heilsugæsla talar illa við sérfræðilækna eða spítala, spítalaþjónusta talar illa við sérfræðiþjónustu og öldrunarþjónustu og svo mætti áfram telja. Þar er þeirri hugmynd varpað fram að setja með einhverjum hætti sameiginlega yfirstjórn, einfaldlega, yfir heilbrigðiskerfið, og mögulega undir forystu ráðherra eða ráðuneytis. Ég hefði áhuga á að heyra sjónarmið hæstv. heilbrigðisráðherra hvað þetta varðar.

Mikill skoðanamunur er innan stjórnarflokkanna um hlutverk einkaframtaks í heilbrigðiskerfinu en hver sem afstaða okkar er til þess er staðreyndin sú að á bilinu 35–40% af því fjármagni sem rennur til heilbrigðismála hjá okkur á ári hverju renna til einkarekinna stofnana eða reksturs sem er utan opinbers reksturs með einum eða öðrum hætti. Mig langar að heyra frá hæstv. heilbrigðisráðherra hvort hún hyggist breyta einhverju í þessu eða halda svipaðri stefnu áfram.