148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[14:08]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. menntamálaráðherra svörin í andsvari. Ég velti því fyrir mér, þegar kemur að reiknilíkönum og stefnu stjórnvalda, að reynsla undangenginna ára hefur verið sú að jafnvel þegar árangur hefur náðst í að hvetja ungt fólk til að sækja í iðn- og verknám virðist það seljast upp býsna hratt, þ.e. fjármagnið í reiknilíkönunum fylgir ekki til þess að skólarnir geti tekið við nemendum sem þó hafa áhuga á að sækja í þetta nám. Þeim er í raun snúið yfir í bóknám, sem þeir hafa ekki áhuga á og flosna jafnvel upp úr námi. Það er auðvitað grafalvarlegt þegar við tölum ár eftir ár, og jafnvel áratug eftir áratug, um mikilvægi þess að byggja upp iðn- og verktækninám, að því fylgi ekki fjármagn. Þess vegna myndi ég vilja heyra aðeins betur hugmyndir ráðherra um hvernig hægt sé að endurskoða reiknilíkönin og hvernig stjórnvöld hyggist fylgja stefnu sinni eftir hvað þetta varðar.

Síðan er auðvitað ekki hægt að ræða menntakerfið án þess að horfa til grundvallarvandamáls kerfisins í dag, ekki hvað síst þegar horft er til grunn- og framhaldsskóla, sem er einfaldlega kennaraskortur. Við sjáum að aðsókn í námið hefur hrunið. Um helmingur menntaðra kennara starfar við annað í dag. Ég er nú þannig úr garði gerður að ég reyni yfirleitt að leita uppi hinar augljósu ástæður og ég held að þær séu ekki mjög flóknar. Launin eru einfaldlega of lág. Það er spurning hvernig við getum náð samstöðu um breytingar þar á án þess að raska jafnvægi á vinnumarkaði. Það held ég að sé eitt brýnasta verkefnið þegar kemur að menntakerfinu, að það sé skýr ávinningur að mennta sig til kennslu og að við náum sátt um breytta röðun kennara í launum á vinnumarkaði.