148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[14:19]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Ég er alveg sammála, við þurfum ekki síður að horfa til forvarna. Það er einmitt gríðarlega mikilvægt að byggja upp í t.d. geðheilbrigðiskerfinu. Við þurfum að grípa miklu fyrr inn í þegar fólk verður fyrir áföllum, hvort sem er af andlegum eða líkamlegum toga, til þess að styðja það til virkni að nýju eins fljótt og auðið er og þegar fólk er reiðubúið og treystir sér til að hefja í raun og veru starfsendurhæfingu.

Vandinn verður ekki leystur nema að horfa á hann með heildstæðum hætti þar sem horft er á orsakir örorkunnar og afleiðingar hennar, en ekki síður hvernig við getum endurskoðað örorkulífeyriskerfið sjálft sem ég held að skipti gríðarlega miklu máli. Í dag er það mjög letjandi til atvinnuþátttöku með krónu á móti krónu skerðingunni. Við verðum einfaldlega að setja í forgang að breyta því. Það verður að vera þannig með öryrkja eins og aðra að þeir sjái árangur og ávinning af erfiði sínu.