148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[14:33]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka andsvarið. Af hverju er ekki farið eftir fjármálaáætluninni? Ég hélt það hefði komið fram í umræðu áðan sem tengdist hv. alþingismanni. Hér er ný ríkisstjórn. Hún setur fjármálastefnu. Hún setur sér fimm ára ríkisfjármálaáætlun og síðan eru fjárlögin sett í samninginn. Auðvitað er það bara vegna tímasetningar á kosningunum núna að ekki er hægt að gera þetta í eðlilegri röð. Ég get ekki svarað fyrir einstaka liði á ákveðnum blaðsíðum í 300 eða 400 síðna doðranti sem vorum að fá fyrir stuttu síðan, en þetta er nú bara ástæðan. Ég kem þá bara með sama svarið og ég held að hafi komið fram áður: Við ætlum okkur að setja fjármálastefnu sem ný ríkisstjórn setur til fimm ára þegar hún tekur við. Svo setjum við okkur fimm ára ríkisfjármálaáætlun. Síðan vinnum við fjárlög tengd ríkisfjármálaáætlun, búum til aga í kerfinu og ætlum að vera með agaðri fjármál.

Ég get ekki svarað því öðruvísi en svona. Þetta er fyrst og fremst ástæðan. Ég er ekki með einstakar tölur í kollinum að svo stöddu. Það verður kannski komið eftir nokkurra daga í vinnu í fjárlaganefnd.