148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[14:39]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka andsvarið. Varðandi orð hv. þingmanns um Heilbrigðisstofnun Norðurlands og Sjúkrahúsið á Akureyri — væntanlega hefur eitthvað verið fjallað um það í fjölmiðlum í dag — vil ég endurtaka það að nefndin átti sinn fyrsta fund nú í hádegishléinu og ég er nýkominn að þessu. Þó var talað um að boða fleiri en fulltrúa Landspítalans á fund nefndarinnar. Við teljum nauðsynlegt að fá heilsteyptara yfirlit yfir málin. Auðvitað hef ég áhuga á því, sem þingmaður míns kjördæmis, að áðurnefndar stofnanir, eins og aðrar stofnanir vítt og breitt um landið, njóti sannmælis í þeim fjárveitingum sem eiga að koma til.

Ef þú ætlar að skoða fjárveitingar til Sjúkrahússins á Akureyri þá eru þær upplýsingar á þremur eða fjórum stöðum í fjárlagafrumvarpinu. Ég hefði gjarnan viljað hafa framsetninguna betri, að upplýsingarnar lægju fyrir á einum stað, þannig að menn gætu betur séð samhengi hlutanna. Það tekur tíma að komast í gegnum allar þessar tölur. Ég get sagt hv. þingmanni að fulltrúar viðkomandi stofnana hafa haft samband í morgun og við förum í þessa vinnu. Ég vil að allrar sanngirni sé gætt þegar við skoðum þessi mál.

Varðandi kolefnismálin og gjöldin sem hafa verið til umræðu þá er það samkomulag sem við erum að vinna í. Við höfum náð gríðarlegum árangri á undanförnum árum í rafmagnsbílunum og umhverfisvænum bifreiðum og erum á hraðri siglingu. Við höfum náð miklum árangri á því sviði án þess að hækka gjöldin upp úr öllu valdi. Þar er það því svolítið sama svarið og áðan: (Forseti hringir.) Við erum bara rétt að byrja ferlið. Það er erfitt að koma með mjög fastmótaðar skoðanir á þessu.