148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[14:41]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég skil vel að tíminn sé knappur, en hv. þingmaður hlýtur — ekki síst í ljósi þess að hann var á síðasta þingi og tók þátt í umfjöllun nefndar síðustu ríkisstjórnar um fjárlagafrumvarp — að geta lýst hér skoðunum sínum á þróun kolefnisgjalda. Það skiptir máli hvaða skilaboð eru send út. Hæstv. umhverfisráðherra talar um að þessi 50% hækkun sé bara byrjunin á ákveðinni vegferð. Er hv. þingmaður sammála hæstv. umhverfisráðherra hvað það varðar? Þetta er einföld spurning.

Eftir að hafa hlustað á ræður hv. þingmanns og Bjarkeyjar Olsen Gunnarsdóttur hér fyrr í dag þá hlýt ég að spyrja: Er samkomulag í höfn á milli stjórnarflokkanna um að bæta verulega í á milli 1. og 2. umr.? Það er verulegur slaki núna á þessu fjárlagafrumvarpi. Er ætlunin að slaka enn frekar? Þá væri mjög gagnlegt ef hægt væri að segja okkur sem (Forseti hringir.) erum þingmenn núna við 1. umr. hvert verið er að fara.