148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[14:42]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér vitandi er ekkert samkomulag um frekari tilslakanir varðandi útgjöld ríkisins. Ég hef einungis bent á það hér að umtalsverðar útgjaldahækkanir eru í því fjárlagafrumvarpi eins og það er lagt fram núna.

Mig langar að eyða nokkrum sekúndum í kolefnisgjöldin og slíka þætti. Ég hefði viljað fá frekari greiningu á því hvaða áhrif kolefnisgjaldahækkanir hafa á íbúa í ólíkum landshlutum. Ég hef ekki séð neinar greiningar á því hversu mikið fer í eldsneytiskaup á Austurlandi eða á Vestfjörðum miðað við höfuðborgarbúa og allt það. Það er ekkert til um það. Þetta er þessi greiningarvinna sem endalaust er verið að tala um í fjárlaganefnd. Þegar verið er að taka upplýstar ákvarðanir vantar gríðarlega mikið upp á þær upplýsingar.

Ég hefði viljað fá miklu meira í skógrækt (Forseti hringir.) og landgræðslu. Þar held ég að við eigum gríðarleg tækifæri varðandi loftslagsmálin og ég hefði viljað sjá verulegt fjármagn sett í þá þætti.