148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[14:48]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Við vitum það sem sagt núna að heildaráhrif þeirra skattahækkana sem menn ætla að fara í hafa ekkert verið skoðuð. Menn hafa ekkert velt því fyrir sér hvaða áhrif þetta hefur. Ég geri þó ráð fyrir því að hv. þingmaður muni beita sér fyrir því og væntanlega tryggja að nú þegar verði farið í rannsóknir og athuganir á því hvaða áhrif þetta hefur. Gert er ráð fyrir að fjárlög verði samþykkt fyrir áramót þannig að menn hafa ekki langan tíma til að velta þessu fyrir sér. Nema hv. þingmaður sé að boða að hann hafi fyrirvara á fjárlögunum þar til það er orðið ljóst hvaða áhrif þetta hefur, t.d. á ferðaþjónustuna. Ég kýs að túlka orð þingmannsins þannig að það sé ekki sjálfgefið að málið fari óbreytt í gegnum þingið.