148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[14:49]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka andsvarið. Menn túlka það sem sagt er með ýmsum hætti; mér fannst ansi hratt hafa farið yfir varðandi túlkunaratriðin í þessu tilviki.

Ég var skipaður í fjárlaganefnd fyrir 28 klst. Við fengum fjárlagafrumvarpið í hendur einhverjum klukkutímum áður. Ég er ekki það ofurmenni að ég geti kynnt mér alla þætti fjárlagafrumvarps, 400 síður og fylgirit með, á þeim tíma eða nái öllu samhengi hlutanna. Við erum að kalla á okkar fund fulltrúa stærstu stofnananna í landinu, m.a. til þess að ná utan um málin og fá þeirra sýn. Sjálfsagt gætu orðið einhverjar breytingar í hvaða átt sem er milli málaflokka eða hvernig sem það er. Ég ætla ekkert að segja að búið sé að ganga frá þessu nú frekar en nokkurn tímann áður í 1. umr. (Forseti hringir.) Ég vil hins vegar ekki láta leggja mér orð í munn eins og hv. þingmaður gerði hér áðan.