148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[14:51]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (Flf):

Herra forseti. Það þarf víst ekki að fara mörgum orðum um mikilvægi þess máls sem hér liggur fyrir, fjárlögin hafa mikla þýðingu fyrir efnahagslífið í heild sinni, skapa því ákveðna umgjörð og skilgreina afstöður og stellingar sem skipta auðvitað mjög verulegu máli. Það eru ákvarðanir í fjárlögum sem hafa mikla þýðingu fyrir atvinnufyrirtæki og heimili, snerta samkeppnisstöðu atvinnufyrirtækja og hag heimila.

Það er kannski ekki tilefni við 1. umr. til þess að fara ítarlega ofan í einstök atriði á þessu stigi. Þó er ástæða til þess að nefna að umgjörðin um fjárlögin felur í sér miklar umbætur, lög um opinber fjármál, fjármálaráð sem veitir umsagnir og annað af því tagi. Þessu ber auðvitað að fagna. Um leið þurfum við, eins og hér hefur komið fram í máli annarra, að sætta okkur við það við þær aðstæður sem nú eru uppi að hlutirnir gerast kannski ekki nákvæmlega í þeirri röð eins og ætti að vera.

Ef ég vík að tekjuhlið frumvarpsins þá munar kannski mestu um óljósa stefnu varðandi veiðigjöld. Það er eins og nefnt hefur verið ýmislegt óljóst um kolefnisgjaldið og einnig varðandi fyrirkomulag eða skipulagsbreytingar í kringum fjármagnstekjuskattinn.

Þá vil ég leyfa mér að lýsa hér þungum áhyggjum vegna skattlagningar á lægstu tekjur. Framfærsluviðmið, þegar ég fletti því síðast upp á vefsíðu velferðarráðuneytisins, er um 224 þús. kr., það er fyrir utan útgjöld til húsnæðis. Það er því ekki fráleitt að leggja til grundvallar 300 þús. kr. miðað við þessar opinberu tölur sem algert lágmark sem þurfi fyrir einstakling til nauðþurfta. Samt er það svo að tekjur langt undir þessu viðmiði eru skattlagðar hér. Svo virðist sem ríkissjóður megi alls ekki án þessa fjár vera, ekki síst í ljósi þess að þegar innt er eftir kostnaði við að lækka þetta þá er jafnan dæst þungan og sopnar hveljur með ummælum um að allar breytingar í þessu efni séu svo dýrar að í þær sé ekki ráðandi. En hin hliðin á þeim pening er þá sú að ef þetta er rétt þá erum við með ríkissjóð sem reisir afkomu sína að verulegu leyti til á því að skattleggja tekjur sem ekki duga fyrir nauðþurftum; fæði, klæði og húsnæði. Við þetta er auðvitað ekki búandi.

Í kosningabaráttunni, ef ég má leyfa mér að vísa til hennar, lagði Flokkur fólksins fram hugmyndir um að hægt væri að framkvæma aðgerðir til umbóta í þessu efni með því að taka upp stiglækkandi persónuafslátt þannig að hann félli niður við tekjur kannski kringum 1,5 millj. kr., eitthvað slíkt. En við munum að sjálfsögðu fjalla ítarlegar um þetta efni í störfum okkar á Alþingi.

Ef við lítum sem snöggvast á gjaldahliðina þá eru nokkur atriði sem er vert að nefna þó að kannski verði að gera það ítarlegar við 2. umr. Því er haldið fram að það kosti liðlega milljarð að hækka frítekjumarkið úr 25 þús. kr. í 100 þús. kr. En það virðist sem svo að sú áætlun feli ekki í sér neitt mat á skatttekjum sem rynnu til ríkisins af óbeinum sköttum. Það virðist ekki gert ráð fyrir því að þessi breyting gæti leitt af sér aukna atvinnuþátttöku og aukna vinnu og þar með auknar skatttekjur. Það virðist ekki gert ráð fyrir því að upp á yfirborðið kæmi svört vinna sem 25% reglan hefur hugsanlega skapað.

Þá er auðvitað ástæða til að nefna að þetta frumvarp er þannig úr garði gert að það veldur í það minnsta miklum vonbrigðum, að ekki sé sagt mikilli reiði, meðal öryrkja. Eru þeirra viðbrögð að sjálfsögðu eðlileg og skiljanleg við þessar aðstæður.

Þá vil ég nefna í þriðja lagi varðandi gjaldahliðina að þarna eru áform um að hækka endurgreiðsluhlutfall á tannlækningum fyrir lífeyrisþega og aldraða. Spurningum er hins vegar ósvarað um það af hverju það þarf að bíða fram á mitt ár og sömuleiðis um það hvers vegna ekki er tekið fastar á því máli en sýnist vera gert ráð fyrir í ljósi þess að viðmiðunargjaldskrá Sjúkratrygginga sem stuðst er við hefur ekki breyst frá árinu 2004 eftir því sem næst verður komist.

Varðandi skuldir, lántökur og annað af því tagi er kannski vert að nefna tvö atriði. Það er annars vegar að það kynni að vera tilefni til þess að sýna með skýrari hætti skuldbindingar ríkissjóðs gagnvart lífeyrisskuldbindingum opinberra starfsmanna, þá ekki síst að draga fram áhrif þess fyrir skuldbindingar ríkissjóðs þegar teknar eru ákvarðanir eins og menn þekkja í kjaramálum opinberra starfsmanna. Það er auðvitað liður í gagnsæiskröfu 21. aldarinnar að upplýsingar af þessum toga liggi greiðlega fyrir.

Annað atriði sem ég vildi gjarnan nefna í þessu sambandi er að hluti af skuldum ríkissjóðs hefur stofnast til vegna lántöku til þess að styrkja og efla gjaldeyrisforða Seðlabankans. Það er nú kannski ekki hárnákvæmustu vísindi sem um getur nákvæmlega hversu stór slíkur forði á að vera, en það má hins vegar segja að það sé athugunarvert, þegar við lifum tíma eins og þá sem við höfum fengið að kynnast að undanförnu þar sem gjaldeyrir flæðir inn í landið í stríðari straumum en nokkur dæmi eru um áður í sögu lands og lýðs, að sá tími sé ekki notaður af hálfu bankans til þess að efla gjaldeyrisvarasjóð sinn með kaupum á gjaldeyri á eigin gjaldeyrismarkaði og vinna þar með gegn styrkingu krónunnar sem hefur hlotist af þessu mikla innflæði, styrkingu sem hefur leitt af sér mikil vandamál fyrir útflutnings- og samkeppnisgreinar, atvinnugreinar þjóðarinnar, og bakað þeim mikinn vanda. Þetta er efni sem ég teldi fyllilega vert að ræða miklu nánar.

Að lokum, herra forseti. Ég vil bara leyfa mér að segja það sem nefndarmaður í fjárlaganefnd að við okkur blasir mikill og ærinn starfi á næstunni. Ég hlakka til þess starfs. Fjárlaganefnd mun í auknum mæli starfa á stefnumarkandi grundvelli. Ég veit að nefndin er í afar traustum höndum miðað við þá skipan sem er á forystu hennar.