148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[15:15]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var mjög vel af sér vikið. Ég veit að hv. þingmanni þætti mjög skemmtilegt að særa það fram hjá mér að mér þættu Sjálfstæðismenn hafa ráðið of miklu of lengi. Og það er auðvitað mín skoðun og hefur verið mjög lengi. (Gripið fram í: Rosa erfitt að tæla þetta fram.) Já, nákvæmlega. Þetta er mér mjög ofarlega í huga og framarlega á tungu.

Ég hef sagt, um þessa breytingu á ráðstöfunum opinbers fjár inn í heilbrigðiskerfið, þ.e. að uppbyggingin í opinbera kerfið hefur numið 3% en í einkakerfið um 57%, að ljóst sé að þar liggi að baki margháttaðar stórar og smáar ákvarðanir. Þær ákvarðanir þarf að skoða. Það þarf að tryggja að uppbyggingartímabilið, sem við erum að fara inn í núna, sé í þágu hins opinbera heilbrigðiskerfis sem er heilbrigðiskerfið sem við eigum sjálf og er í þágu okkar allra.

Það sem hv. þingmaður spyr um, staðsetningu Landspítalans, tek ég í seinna andsvari. Í trausti þess að hv. þingmaður (Gripið fram í.) komi ekki með 14 nýjar spurningar í seinna andsvari.