148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[15:18]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Eitt af mínum áherslumálum í embætti er að gerð verði úttekt á þróun heilbrigðisþjónustunnar á Íslandi á undanförnum tíu árum, þ.e. að fyrir liggi nákvæmlega hvað það er sem hefur í raun og veru gerst. Hefur verið nægileg yfirsýn yfir það hvernig við vildum sjá heilbrigðisþjónustuna þróast eða hefur verið um að ræða ákvarðanir sem hafa gengið hingað og þangað án þess að metið hafi verið hverju sinni hvaða áhrif þær ákvarðanir hefðu í raun fyrir heildarhagsmunina í samfélaginu? Til þess að taka ákvarðanir þarf ég að hafa slíka úttekt. En eins og ég hef sagt og sagði hér áðan og get alveg endurtekið er mitt meginmarkmið að styðja við hið opinbera heilbrigðiskerfi.

Varðandi spurningu hv. þingmanns um nýjan spítala er það mín bjargfasta afstaða að staðsetningin við Hringbraut sé rétt. Það er meginafstaða nánast allra stjórnmálaflokka á Íslandi að svo sé. Ég hef ekki heyrt þetta áður sem hv. þingmaður er að vísa til, að einhver þöggun sé í gangi á Landspítalanum um þessi mál. Ég hitti forstjóra (Forseti hringir.) Landspítalans einu sinni í viku. (GBS: Það er ekki nóg.) Það gæti verið eitt af því sem ég tæki upp í samtali við hann.