148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[15:22]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er nefnilega þannig að þingmenn fara eftir eigin sannfæringu. Ríkisstjórnin verður hins vegar að fara eftir ályktunum og lögum. Þingmenn geta komið með tillögur héðan og þaðan og greitt atkvæði hingað og þangað óháð því hvað Alþingi hefur áður samþykkt, bara samkvæmt eigin sannfæringu.

Mér finnst mjög nauðsynlegt að fara vel yfir stöðuna hvað heilbrigðiskerfið varðar. Það var tekið gríðarlega stórt skref í vinnu við fjárlög í desember í fyrra um að ná núllinu. Það var farið í skuldaniðurfellingar frá 2015, 2016 og hvað það nú var til að ná því markmiði. Að glata því niður væri alger hörmung, sérstaklega af því að áherslumál í kosningabaráttunni bæði 2016 og 2017 var uppbygging í heilbrigðiskerfinu. Þar er lykilatriði að ná að byrja á núlli. Ef við sjáum að það fer aftur að (Forseti hringir.) stefna í mínus eins og forstjóri Landspítalans hefur nefnt þá erum við ekki í uppbyggingu. (Forseti hringir.) Við skulum nýta tækifærið og gera betur.