148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[15:24]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Mér finnst þetta hafa verið athyglisverðar umræður um annars alveg þokkalegt fjárlagafrumvarp. Ég verð að segja að því meira sem maður grúskar í þessum tölum þá sést að bilið milli þess fjárlagafrumvarps sem var lagt fram í haust og þessa frumvarps er ekki mikið. En það er þó þannig að verið er að slaka á í útgjöldum ríkissjóðs. Auðvitað er það visst áhyggjuefni en um leið er rétt að draga fram að við lögðum áherslu á, fyrir ekki löngu síðan í kosningum, Viðreisn eins og aðrir flokkar, að það þyrfti að efla heilbrigðiskerfið, það þyrfti að styrkja menntakerfið o.s.frv. Ég vil líka lýsa yfir ánægju minni með þá tóna sem hafa verið slegnir af hæstv. fjármálaráðherra og ákveðnum þingmönnum, bæði Framsóknarflokks sem og Sjálfstæðisflokks, í þá veru að menn verði að fara varlega.

Síðan hlustar maður á ræðu t.d. hæstv. heilbrigðisráðherra þar sem maður sér fram á að það verði hugsanlega ákveðinn slagur um sykurskatt og fleira innan ríkisstjórnarflokkanna. Það verður fróðlegt að fylgjast með því hvaða tónar verða slegnir þar.

Það er margt ágætt eins og ég hef dregið fram í þessu fjárlagafrumvarpi sem vert er að fylgja eftir. Ég vil líka lýsa yfir ánægju minni með þetta fyrirkomulag, mér finnst þetta vera svolítið skilvirkt þó að allir vilji meiri tíma. En mér finnst einmitt ráðherrarnir hér vera frekar í því að svara og það er hróssins vert.

Ég vil beina spurningum mínum til í fyrsta lagi umhverfisráðherra varðandi kolefnisgjöldin. Ég held að hæstv. umhverfisráðherra hafi heyrt mig tala um það fyrr í dag. Hvernig sér hann þróunina? Það er boðuð hækkun upp á 50%. Það er greinilega ágreiningur innan stjórnarflokkanna um næstu skref. Ég bendi á orð hv. þm. Njáls Trausta Friðbertssonar í þá veru. Hvernig sér hæstv. umhverfisráðherra þetta gera sig og hvernig sér hann okkur Íslendinga takast á við fjárhagsskuldbindingar í tengslum við loftslagsmálin fyrir 2030?

Í öðru lagi vil ég spyrja samgönguráðherra og um leið formann …(Gripið fram í.) Ég bíð með það, með formann Framsóknarflokksins, hann er einhvers staðar fjarri góðu gamni. Ég áskil mér rétt til að fá að koma hér aftur í ljósi þess að ég óskaði sérstaklega eftir að samgönguráðherra og formaður Framsóknarflokksins yrði hér.

Ég vil spyrja hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um auðlindagjöldin. Nú hefur verið boðuð endurskoðun. Gerir hann ráð fyrir hækkun auðlindagjalda á næsta ári í fjárlagafrumvarpi? Gengur hann út frá að það verði hækkun auðlindagjalda? Sér hann fram á tækifæri í því að ræða veiðigjöldin sem þarf að endurskoða? Það er vitlaus uppgjörsaðferð að taka tillit til uppgjörs tvö ár aftur í tímann. Sér hann tækifæri í því að endurskoða veiðigjöldin þar sem hugsanlega er hægt að taka tillit til lítilla og meðalstórra útgerða, ekki síst á landsbyggðinni, og reyna að taka þann þátt inn í sáttagjörð um sjávarútveginn, varðandi sanngjarnt auðlindagjald fyrir aðganginn að fiskveiðiauðlindum okkar? Spurningin er einfaldlega: Sér sjávarútvegsráðherra fram á hækkun veiðigjalda á næsta ári?

Ég bíð enn eftir hæstv. samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra en ætla að setja fram spurningarnar engu að síður og vangavelturnar. Það er út af kolefnisgjöldunum. Hvernig sér hann þróun kolefnisgjalda verða? Ég vil benda á að í athyglisverðri og góðri skýrslu sem hæstv. menntamálaráðherra flutti á sínum tíma á vegum NATO-þingsins er dregin fram váin sem tengist loftslagsmálum og undirstrikað að mikilvægt er að fara í hækkun kolefnisgjalda til að reyna að stýra þeirri þróun sem nú er uppi. Ég vil fá fram viðhorf Framsóknarflokksins varðandi kolefnisgjöldin.

Í öðru lagi vil ég spyrja hæstv. samgönguráðherra, og þá kemur kannski bara hingað upp einhver af þingmönnum Framsóknarflokksins og svarar þessum spurningum, hvernig hann sjái fyrir sér fjármögnun samgönguframkvæmda á suðvesturhorninu. Nú er búið að slá út af borðinu … Vertu velkominn hingað í þingsal, hæstv. samgönguráðherra og formaður Framsóknarflokksins. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra um fjármögnun verkefna, ekki síst þeirra brýnu samgönguframkvæmda sem þarf að ráðast í á suðvesturhorninu. Nú er búið að slá út af borðinu allar hugmyndir um hugsanlega gjaldtöku. Það hefði alveg verið umræðunnar virði að sjá kosti og galla þess fyrir suðvesturhornið að fara í slíka gjaldtöku. Ég hefði viljað vega þá kosti og meta. En hvernig sér þá hæstv. samgönguráðherra samgönguframkvæmdum á suðvesturhorninu vinda fram á næstunni? Þær eru brýnar og mikilvægar aðgerðirnar sem við þurfum að fara í til að leysa úr umferðarmálum.

Ég vil líka spyrja hæstv. samgönguráðherra um borgarlínu, hvernig hann sjái þróun borgarlínunnar, fjármögnun, og hvar það verkefni (Forseti hringir.) verði statt t.d. árið 2020.