148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[15:30]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég sé að við Þorgerður Katrín erum svipuð að hæð, ég get ekki komið þessu hærra upp. Hv. þingmaður, þakka þér innilega fyrir spurninguna, nú fékk ég loksins að standa upp.

Hvað varðar kolefnisgjöldin þá held ég að það sé alveg ljóst, eins og segir í stjórnarsáttmálanum, að þau ber að hækka um 50% um áramótin. Það er alveg skýrt. Síðan er líka alveg skýrt í stjórnarsáttmálanum að það á að hækka þau áfram í áföngum.

Ég vil aðeins beina máli mínu að því að þróunin erlendis, ekki síst í nágrannalöndunum, er einmitt sú að leggja meiri áherslu akkúrat á þetta atriði. Ég deili svo sannarlega áhuga hv. þingmanns á þessari gjaldtöku.

Ég held að í þessu samhengi þurfi líka að skoða atriði eins og mengunarbótaregluna, þ.e. sá borgar sem mengar, og fleiri hvata og skatta sem tengjast þessum málum. Það er meðal annars áhugavert að þróunin erlendis hefur sýnt okkur að hvatar sem hafa áhrif á kaupverð hafa virkað betur en þeir sem hafa áhrif á rekstur. Það er eitthvað sem við þurfum að skoða í heild sinni sérstaklega.

Varðandi spurningu hv. þingmanns, um fjárhagslegar skuldbindingar í loftslagsmálum, er þetta akkúrat hluti af þeirri vinnu sem er í gangi í ráðuneytinu og þarf að skoða sérstaklega þegar fyrir liggur hlutdeild okkar í samningum við Evrópusambandið.