148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[15:35]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Herra forseti. Það er í sjálfu sér ekki miklu við þetta að bæta. Ég vil þó bæði hrósa hæstv. umhverfisráðherra fyrir að vera heiðarlegur í þessu máli, fyrir að segja frá málinu eins og það er, og um leið ríkisstjórninni. Þetta er vandasamt. Það þarf að hafa samráð við greinina. Ég veit að hæstv. ferðamálaráðherra hefur verið mjög góð í því að vera í samráði við greinina hverju sinni. Þetta er vandasamt. Þarna vegast á ákveðnir hagsmunir. Það er ríkisstjórnarinnar hverju sinni að leita jafnvægis. Ég held að ágætlega hafi tekist til þarna þótt vissulega væri gaman að nota pólitískt púður og skjóta á umhverfisráðherra varðandi þetta, sem stangast á við umhverfisverndarsjónarmið. En við erum að fá ákveðna framtíðarsýn í þessu. Mér finnst það gott. Við erum að varða veginn og sjá hvert við erum að fara. Við vitum hug og sjónarmið ríkisstjórnar í þessu máli.