148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[15:44]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður spyr hvort ég geri ráð fyrir að veiðigjöld hækki á næsta ári. Því er til að svara að erfitt er að gera sér grein fyrir því en að öllum líkindum, að óbreyttum lögum um álagningu veiðigjalds, má gera ráð fyrir að veiðigjaldið lækki á næsta fiskveiðiári, af þeirri einföldu ástæðu að álagningu veiðigjalda er þannig háttað að þau miðast við afkomu útgerðarinnar tvö ár aftur í tímann. Árið 2015 var mjög gott, 2016 var erfiðara þannig að gera má ráð fyrir að í því ljósi lækki alla vega grunnurinn að álagningunni, ekki nema til komi einhver aflaaukning sem muni vega upp þetta tekjutap, þ.e. ef lögin verða óbreytt.

Ég vil hins vegar nefna að veiðigjaldsnefnd er að störfum og er að skoða álagningu veiðigjalda. Ég geri ráð fyrir að þar sem lögin renna út á næsta ári, sem nýtt eru til álagningarinnar, eins og hv. þingmaður þekkir, komi fram nýtt frumvarp á vorþingi sem taki á því með hvaða hætti við hyggjumst leggja veiðigjöldin á fyrir fiskveiðiárið 2018–2019.