148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[15:48]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég geri ráð fyrir að við eigum eftir að taka aðra umræðu um innihaldið í fiskveiðistjórninni. Við erum að ræða fjárlögin. Svarið er mjög einfalt: Að óbreyttum lögum skila veiðigjöldin sennilega lægri tekjum nema aflaaukning vegi það upp. Það er ekki ný stefna ríkisstjórnarinnar. Við leggjum veiðigjöldin á samkvæmt lögum sem hafa verið í gildi í smá tíma. Það er engin ný stefna. (Gripið fram í.) Ég svaraði því engu til hvort ég hefði áform uppi um breytingar á þessu. Ég sagði í svari mínu að ég hefði áform uppi um að leggja fram frumvarp um álagningu veiðigjalda á vorþingi. Ég var ekki að ræða innihaldið í því, ekki með neinum hætti, enda er ekki tilefni til í fjárlagaumræðu. Ég skal eiga orðastað við hv. þingmann um innihaldið í álagningu veiðigjalds eða breytingu á fiskveiðistjórnarfrumvarpinu með það í huga að reyna að ná um það meiri sátt. En ég set alveg spurningarmerki við það í umræðunni um það hver ætlar að treysta sér til að halda á einhverjum úrskurði um hvað sé réttlæti í þeim efnum og hvað ekki. (Forseti hringir.) Þann skilning held ég að við getum haft, 63 einstaklingar í þessum þingsal, jafn margvíslegan og við erum mörg.