148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[16:18]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Ég geri ekki tilraun til að leyna vonbrigðum mínum með fjárlagafrumvarpið sem við ræðum hér í dag. Ríkisstjórnarflokkarnir gáfu með tali sínu í stjórnarmyndunarviðræðunum og með hálfkveðnum vísum í stjórnarsáttmálanum í skyn að það ætti að gera mun betur í innviðauppbyggingu og innspýting ætti að vera veruleg í heilbrigðismál, menntamál, samgöngumál og í velferðina, vinna ætti gegn fátækt og jafna leikinn og allir áttu að njóta góðærisins. En svo er fjárlagafrumvarpið lagt fram og í ljós kemur að aðeins er verið að setja 15 milljarða viðbót við fjárlagafrumvarp ríkisstjórnar Bjarna Benediktssonar, ríkisstjórnar sem féll í september. Auðvitað eru 15 milljarðar betra en ekkert, en ótrúlega aumt miðað við allt sem á undan er gengið og allt sem sagt hefur verið. Og ekkert, bara ekki neitt, er gert til þess að bæta stöðu fátækasta fólksins í landinu.

Ræðutíminn sem okkur er skammtaður er stuttur. Ég ætla að verja mínum fimm mínútum í aðgerðir ríkisstjórnarinnar til að jafna kjör fólksins í landinu eða öllu heldur aðgerðaleysi í þeim efnum.

Fyrst vil ég nefna barnabætur. Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur leggur til nákvæmlega sömu krónutölu og ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar gerði í september, en viðmiðunum til úthlutunar barnabóta er lítillega breytt. Foreldrar með minna en 242 þús. kr. á mánuði fá óskertar barnabætur í stað 225 þús. kr. í ár. Greiðslur með fyrsta barni hækka um svo mikið sem 1.477 kr. á mánuði og hækkar um 1.758 kr. á mánuði hvert barn eftir það. Það er nú allt og sumt og ótrúlega rýrt í ljósi þess að barnabætur hafa dregist saman um 23% að raunvirði frá árinu 2008. Færri og færri fjölskyldur njóta barnabótanna og hefur fækkað um 12.000 frá árinu 2013.

Á Norðurlöndum og víða í Evrópu hefur ríkt mikil sátt um gildi stuðnings til barnafjölskyldna, en hér hafa hægri stjórnir dregið úr vægi þeirra og þeirri ömurlegu stefnu á að halda áfram í ríkisstjórn undir forystu Vinstri grænna. Barnabætur á Norðurlöndum er föst upphæð á barn, á meðan stuðningur á Íslandi er háður fjölda og aldri barna, tekjum foreldra og hjúskaparstöðu.

Við í Samfylkingunni viljum að þróuninni verði snúið við og barnabætur lagaðar að norræna kerfinu þar sem barnabætur hafa það hlutverk að jafna lífskjör fólks með svipaðar tekjur en mismunandi framfærslubyrði. Fleiri hafa tekið undir þetta með okkur svo sem ASÍ. Þrengri fjárhagsleg staða ungs fólks og veiking barnabótakerfisins og vaxtabótakerfisins hefur áhrif á kjör ungra barnafjölskyldna og hefur vafalaust áhrif á það að barneignum hefur fækkað vegna þess að fólk hefur hreinlega ekki efni á því. Lífskjör ungs fólks eru nú verri en foreldrar þeirra bjuggu við. Staða ungs fólks á húsnæðismarkaði hefur versnað. Minnkandi stuðningur stjórnvalda við barnafjölskyldur er því risastórt skref aftur á bak.

Í bókinni Ójöfnuður á Íslandi eftir Stefán Ólafsson og Arnald Sölva Kristjánsson er m.a. fjallað um áhrif barnabóta og þeirra viðmiða sem eru notuð í úthlutun þeirra. Raunin er sú að mikil skerðing barnabóta strax við lágar tekjur, líkt og ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur leggur til, stuðlar að meiri fátækt meðal vinnandi fólks. Hjón sem bæði eru í launaðri vinnu en á lágum launum fá litlar barnabætur hér á landi. Það er ein af ástæðunum fyrir því að fátækt meðal barnafjölskyldna er meiri en hjá barnlausum fjölskyldum. Þetta er þekkt staðreynd. Engra frekari greininga er þörf þannig að ríkisstjórnin þarf ekki að bíða með aðgerðir þess vegna og ættu að hækka barnabætur strax og breyta viðmiðum úthlutunar.

Þegar fjallað er um þessi fjárlög verður ekki heldur komist hjá því að minnast á þá skelfilegu staðreynd að ekkert á að gera til að mæta vanda öryrkja og bæta þau kjör sem þeir búa við. Öryrkjar fá ekki að njóta ávaxta af vinnu sinni, þ.e. þeir sem geta stundað launaða vinnu að einhverju marki.

Margt okkar fátækasta fólk, bæði úr hópi aldraðra og öryrkja lifir aðeins á greiðslu almannatrygginga, upphæð sem nær ekki lágmarkslaunum í landinu. Ofan á það bætist að margir eru á erfiðum leigumarkaði og búa í óhentugu húsnæði.

Tekjulægsta fólkið fær ekki að njóta góðærisins. Foreldrar ungra barna með lágar tekjur og meðaltekjur ekki heldur. Bilið á milli þeirra ríkustu og fátækustu mun halda áfram að breikka.

Hvað segir hæstv. félags- og jafnréttismálaráðherra um þessa stöðu sem hyggst ráðast í aðgerðir gegn fátækt? Hvers vegna á að bíða með þær aðgerðir í ár? Hvers vegna á ekki að grípa til aðgerða á árinu 2018? Því þarf að ráðast í greiningar á því sem við öll þekkjum og vitum? Um þetta hafa verið skrifaðar bækur, gerðar greiningar bæði af opinberum aðilum og öðrum.