148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[16:23]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Oddnýju Harðardóttur fyrir þær spurningar sem hún beindi til þess sem hér stendur. Það er margt í máli hv. þingmanns sem ég er sammála og við deilum skoðunum á margan hátt, sérstaklega varðandi barnafjölskyldur, varðandi fátækt barna og þeirra sem verst standa í samfélaginu. Í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar er komið inn á þessa málaflokka. Það er sérstaklega talað um fátækt barna. Það er líka talað um að grípa þurfi til aðgerða hvað varðar þann hóp sem hefur lægstar tekjurnar.

Varðandi endurskoðun á bótakerfinu, barnabætur, fæðingarorlof o.fl., þá er það eitt af því sem ríkisstjórnin hefur í hyggju að ræða við aðila vinnumarkaðarins um, hvernig þeirri stefnumótun og breytingum þar að lútandi verði háttað. Sá sem hér stendur hefur þegar boðað alla þessa helstu aðila á fund til sín og hitt þá alla og meðal annars farið yfir áherslur ríkisstjórnarinnar í því efni, varðandi fæðingarorlof, varðandi barnabætur og varðandi þá hópa samfélagsins sem verst standa.

Það er alveg hárrétt, eins og hv. þingmaður kom líka inn á, að margir af þessum aðilum lýstu þeim skoðunum að þeir vildu sjá aðgerðir, m.a. varðandi barnabætur. Sá sem hér stendur hefur talað um að mikilvægt sé að nota þau tæki og tól til að koma til móts við þær fjölskyldur sem lægstar hafi tekjurnar. Ég bind miklar vonir við að við gerð kjarasamninga núna verði meðal annars unnið að breytingum á þessum bótakerfum og þar verði sérstaklega hugað að þessum hópum.

Margir þurfa að koma að þeirri vinnu. Það er til mikið af tillögum og gögnum og fleiru í því efni. En við þurfum að vinna þetta í sátt við aðila vinnumarkaðarins, við Alþingi og fleiri aðila. Það stendur ekkert á þeim sem hér stendur að setja allan kraft í þá vinnu. Það verður verkefni næstu vikna og næstu mánaða og er þegar hafið.