148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[16:27]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Aðeins fyrst að hækkuninni í 300 þús. kr., sem hv. þingmaður kom inn á. Varðandi breytinguna gagnvart öldruðum þá mun ráðuneytið styðjast við það leiðarljós sem Alþingi setti fram um hvernig þeirri hækkun skyldi háttað og hvaða flokkar skyldu hækkaðir og með hvaða hætti en það kom fram m.a. í nefndarálitum hér við umræður um endurskoðun á almannatryggingakerfinu.

Varðandi öryrkjana og þá sem njóta örorkulífeyrisgreiðslna vil ég segja að ráðherrann hefur þegar fundað með fulltrúum Öryrkjabandalagsins. Það er stefna þessarar ríkisstjórnar að fara í samstarf við þessa aðila. Það hefur þegar verið rætt. Það er sérstaklega kveðið á um það í stjórnarsáttmálanum og kemur líka fram í fjárlagafrumvarpinu. Mig langar að lesa það, með leyfi virðulegs forseta:

„Ríkisstjórnin mun efna til samráðs við forsvarsmenn örorkulífeyrisþega um breytingar á bótakerfinu með það að markmiði að skapa sátt um að einfalda kerfið, tryggja framfærslu örorkulífeyrisþega og efla þá til samfélagsþátttöku. Í því samráði munu stjórnvöld fyrst og fremst ræða við Öryrkjabandalagið og Þroskahjálp og stefna að því að ljúka þeirri vinnu sem fyrst. Fyrsta skref af hálfu stjórnvalda verður að skipuleggja framboð hlutastarfa hjá hinu opinbera fyrir fólk með skerta starfsgetu en á síðari stigum er mikilvægt að atvinnulífið taki virkan þátt í því verkefni.“

Þetta er talsvert langur kafli. Í tengslum við þessa vinnu, líkt og gert var gagnvart öldruðum, ellilífeyrisþegum, verður hægt að móta þarna stefnu til framtíðar. Þetta hefur þegar verið sett af stað og er ætlunin að fara í þetta af krafti á nýju ári og í góðu samstarfi og í góðu samkomulagi við þau hagsmunasamtök sem þarna heyra undir, Öryrkjabandalagið og Þroskahjálp. Hefur þegar verið farið yfir þetta á fundum með stjórnum þessara samtaka.

Ég bind einnig miklar vonir við það að samhliða þessu verði ráðist í (Forseti hringir.) umtalsverðar kjarabætur fyrir þessa hópa sem svo sannarlega þurfa á því að halda.