148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[16:30]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Þau segja mér að enn eigi þeir sem fátækastir eru að bíða, bíða enn og aftur eftir því að kjarabótin komi. En hæstv. ráðherra vonast til að niðurstaðan verði góð. Það vona ég líka.

Herra forseti. Ég vil bara mótmæla því úr þessum ræðustól að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur skuli leggja hér fram fjárlagafrumvarp með algjörri sveltistefnu gagnvart þeim sem fátækastir eru í landinu og ætla sér síðan að semja um það í kjarasamningum og taka árið 2018 í að breyta kerfi öryrkja. Hvað hafa margar ríkisstjórnir sagt þetta? Meira að segja ríkisstjórnin sem ég sat í sagði þetta. Það eru komin mörg, mörg ár síðan.

Enn búa öryrkjar við allt of flókið kerfi. Þeir eiga erfitt með að gæta réttinda sinna vegna þess að kerfið er flókið og ógegnsætt. Það hefur verið það allt of lengi. Það á að fara í þetta og gera breytingar hratt og vel.

Hæstv. ráðherra er sammála mér, sé ég. Ég mun styðja hann með ráðum og dáð til að sú vinna geti farið hratt og vel fram svo að kjör aldraðra og öryrkja verði, þegar upp er staðið, mannsæmandi. Ég vil að ekki verði farið í starfsgetumat nema vinnumarkaðurinn sé tilbúinn í það líka.