148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[16:32]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Ég hef frekar mikinn áhuga á nýsköpun og ýmsu sem henni tengist. Þessi nýja ríkisstjórn hefur greinilega mikinn áhuga á að láta kenna sig við nýsköpun og framfarir. Slíkum metnaði ber að fagna. En óttinn er alltaf við að þetta sé svolítið tómt. Því er rétt að við förum yfir fjárlagafrumvarpið með hliðsjón af þeirri framþróun sem á að verða.

Það vekur athygli mína að dregið er úr framlögum til samkeppnissjóða á vegum atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins. Það eru ansi margir samkeppnissjóðir reknir á vegum hins opinbera í dag. Það er kannski tímabært að fara í einhvers konar endurskoðun og jafnvel sameiningu þar á. En það er alveg dagljóst að það er ekki offramboð á peningum sem hrjáir þessa sjóði eða styrkþega þeirra. Og það er ekki í fljótu bragði hægt að sjá í frumvarpinu hvar hin mikla áhersla ríkisstjórnarinnar á nýsköpun er í raun og veru. Hana er a.m.k. ekki að finna á málefnasviðinu rannsóknir, nýsköpun og þekkingargreinar. Þar er afskaplega mikið um stefnumótun og stefnumörkun og planlagningu en afskaplega lítið af raunverulegum aðgerðum sem miða að því að efla nýsköpunarumhverfið, bæta rekstrarumhverfi fyrirtækja og efla rannsóknir og þróun.

Tillögur Vísinda- og tækniráðs virðast ekki fá fjármagn og útfærslu, þrátt fyrir mikið tal um nauðsyn þess fyrir kosningar, heldur í besta falli aðra umferð af stefnumótun eitthvert út í loftið. Það liggur við uppgjöf af hálfu ráðsins gagnvart því að nokkuð muni gerast því að þetta er viðvarandi vandamál, að stefnumótun haldi áfram endalaust og marklaust, og þegar raunverulegar hugmyndir koma fram er þeim ekki fundinn farvegur.

Raunar eru nokkrir staðir þar sem búið er að þræða smávegis af nýsköpun í gegnum ýmsa málaflokka. Þannig má t.d. sjá í sjávarútvegi markmið um að daga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Það er mjög flott. En maður spyr sig hvort efnahagslegir hvatar séu til staðar til að hvetja fólk til að taka þátt í slíku.

Það er einnig gleðiefni að það virðist standa til að fjármagna verkefni sauðfjárbænda um koltvísýringsjöfnun samkvæmt lýsingu í frumvarpinu. En hvergi virðist koma fram fjárheimild til að dekka þann kostnað. Það má ætla að það verkefni kosti í kringum 200 millj. kr. á ári næstu fimm árin.

Ég bind miklar vonir við að við getum einhvern veginn lagfært þetta í meðförum þingsins milli 1. og 2. umr., að við getum fundið peningana til þess að setja eitthvað í þennan metnað. Metnaðurinn er til staðar, hann birtist bara ekki í fjármununum, að því er virðist. Ég held að allir flokkar á Alþingi hafi slíkan metnað fyrir aukinni nýsköpun og framförum.

Mig langar svolítið til þess að heyra frá hæstv. ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra hvort þetta frumvarp sé í samræmi við hugmyndir hennar og væntingar um það sem á að gera í nýsköpun og þróun og í þeim greinum öllum. Ef svo er ekki, hvar má helst bæta það að mati hennar? Hvers vegna var það ekki gert? Það er ekki eins og hún sé að koma ný inn í ráðuneytið og hafi því ekki haft neinn tíma til að undirbúa.

Sér í lagi spyr ég: Er nokkuð í þessu fjárlagafrumvarpi sem miðar að því að bæta sérstaklega stöðu sprotafyrirtækja og nýsköpunarfyrirtækja? Nú var mikið talað um það í aðdraganda kosninga að nauðsyn væri að afnema þak á endurgreiðslum vegna rannsókna og þróunar. Það tóku flestir flokkar undir. Það er kannski ágætt. En er eitthvað sem bendir til þess að við séum að fara þá leið eða einhverja leið yfir höfuð? Ég sé alla vega ekki peningana í það.