148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[16:41]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Til þess að svara spurningunni fyrst þá var ég spurð hvort ég væri ánægð eða ósátt við þá fjármuni sem fara í nýsköpunarmálin. Ég ætla að vera heiðarleg og segja að ég er ánægð með þá fjármuni sem fara í þau. Þetta er fullt af peningum sem munu gera góða hluti. Af öllu því sem settir eru fjármunir í er ég sátt við það sem fellur í hlut þessara mála. Mér finnst verkefnið líka frekar vera að endurskoða hvað við gerum við fjármunina og árangurinn sem af því hlýst.

Varðandi bændur eru hugmyndir um að þeir komi með okkur í að ná markmiðum Parísarsamkomulagsins. Ég hef skilið það þannig að búvörusamningur væri t.d. eitt tól þar. Það sem er snúið en samt svo skemmtilegt við að vera nýsköpunarráðherra er að þetta er auðvitað inni í öllum ráðuneytum. Og það eru alls konar sjóðir. Hér var líka fjallað um sjávarútveginn. Þar erum við einnig með sjóði sem heyra undir önnur ráðuneyti. Auðvitað er hluti af því í menntamálaráðuneytinu o.s.frv.

Svo ætla ég að nefna markáætlun. Það er enn eitt tólið. Það hefur ekki verið auglýst í nokkur ár en er verið að fara að gera núna. Frumkvöðlar geta líka sótt í hana.

En varðandi það sem hv. þingmaður nefndi í lokin um Samkeppniseftirlitið og úttekt og annað er það ekki eitthvað sem ég hef vitneskju um að sé á dagskránni en ég er alltaf til í að gera eitthvað í því að bæta hag neytenda og að samkeppni fái að blómstra með eðlilegum hætti.