148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[16:50]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Loga Einarssyni fyrir ágæta ræðu og yfirferð um þessi mál. Hann kom aðeins inn á húsnæðismálin sem mig langar að koma aðeins upp til andsvara um.

Það er rétt að í stjórnarsáttmálanum er tiltekið sérstaklega að lækka eigi þröskuld fyrir ungt fólk og tekjulágt til að komast inn á húsnæðismarkaðinn. Það er vitað að um 80% þeirra sem eru á leigumarkaði vilja gjarnan eignast sitt eigið húsnæði. Við þekkjum það að þar eru meira að segja þröskuldar þó að greiðslugeta fólks sé býsna góð; það stenst þá annaðhvort ekki greiðslumatið eða það á ekki fyrir útborguninni. Þess vegna hafa alls konar hugmyndir verið settar á borðið.

Í stjórnarsáttmálanum erum við líka að tala um að stíga næstu markvissu skref í afnám verðtryggingar. Þar koma reyndar sömu mótvægisaðgerðir til álita. Við erum auðvitað með fyrstu fasteign, séreignarsparnaðinn, sem var samþykkt á sumarþinginu 2016. Strax á þessum stutta tíma sem það úrræði hefur verið til hefur það reynst mjög vel.

Það eru auðvitað aðrir möguleikar sem þarf að skoða. Það er kannski ekki sanngjarnt að ætla okkur það, á þeim hálfa mánuði sem við höfum haft til að undirbúa þessi fjárlög, að leggja til stórkostlegar breytingar þar. Það sem þarf að skoða er m.a. útfærsla á því hvort hægt sé að nýta lífeyriskerfið að öðru leyti, svokölluð svissnesk leið sem við kynntum fyrir kosningar. Það má líka skoða vaxtabótakerfið. Ég veit að Samfylkingin hefur verið með hugmyndir um slíkt, tvöfaldar vaxtabætur eitthvað slíkt. Það má líka velta fyrir sér að fara þá leið sem Norðmenn hafa farið og sérfræðingar hjá Íbúðalánasjóði hafa talað fyrir, það eru lán sem eru vaxtalán, afborgunarlaus um tíma. Við höfum líka talað um afborgunarhlé hjá lánasjóðnum og það eru fleiri slíkar hugmyndir í gangi.

Það mun hins vegar taka tíma að skoða hvaða leiðir nýtast. Við þurfum að skoða þetta heildstætt og kannski er ekki sanngjarnt að ætlast til þess að við höfum komið með þær inn í fjárlög á þessum hálfa mánuði. En vonandi mun þess sjá stað fljótlega á næsta ári hvaða leiðir við teljum skynsamlegastar.