148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[16:58]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir prýðilega ræðu eins og endranær. Ég velti fyrir mér, vegna þess að nú er ég í flokki sem deilir almennum skoðunum þess ágæta flokks sem hv. þingmaður er meðlimur í, í sambandi við almannatryggingar og hugmyndir um borgaralaun. Nú þekki ég ekki, verð ég að viðurkenna, stefnu Samfylkingarinnar í borgaralaunum, en það hefur verið talað mikið um fjórðu iðnbyltinguna og allt það, allt það góða dót.

Það sem liggur fyrir í tillögunum sem við erum að ræða er að hækka frítekjumark á ellilífeyri almannatrygginga gagnvart atvinnutekjum úr 25 þús. kr. í 100 þús. kr. sem er auðvitað góðra gjalda vert. Það er tvennt sem ég hef í raun að athuga við það sem mig langar til að fá álit hv. þingmanns á. Annars vegar það að kostnaðurinn við að hækka það úr 25 þús. kr. upp í 100 þús. kr. er 1,1 milljarður samkvæmt fjárlagafrumvarpinu. Kostnaðurinn við að afnema skerðingarnar af atvinnutekjum á ellilífeyri er hins vegar minna en 2,5 milljarðar sem er ekki mikið meira en tvöföld sú upphæð sem er í fjárlagafrumvarpinu. Það er svona 1,3 milljarðar ofan á. Með því væru skerðingar engar af atvinnutekjum á ellilífeyri almannatrygginga vegna atvinnutekna. Það myndi einfalda kerfið. Það er hin athugasemd mín við þetta, þ.e. að mér finnst þetta flækja kerfið aftur. Það er kerfislega gott að hafa sama frítekjumarkið þótt það sé óþægilegt fyrir skjólstæðinga út frá mismunandi tekjuliðum. Þess heldur að afnema skerðingarnar alfarið fyrir þetta litla fjármagn í samhenginu sem við erum að tala um hér.

Ég velti fyrir mér hvort hv. þingmaður hafi myndað sér skoðun sér í lagi á þessu efni. Tengingin við borgaralaunin er sú að þetta myndi leysa úr læðingi allan vinnukraft sem eldri borgarar kynnu að hafa og vilja veita.