148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[17:02]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Þakkir miklar, virðulegi forseti. Já, ég skil mætavel og tek undir að mörgu leyti með hv. þingmanni. Það eru nokkrir hlutir sem við vitum samt um slíka breytingu, ef við myndum afnema hreinlega skerðingarnar af atvinnutekjum. Við vitum að það veldur ekki þenslu. Við vitum að það er smáræði fyrir ríkissjóð. Við vitum að það virkjar alla eldri borgara sem yfir höfuð hafa getu og vilja til að vinna. Og það einfaldar kerfið sem í mínum huga er ofboðslega mikilvægt vegna þess að flækjustigið í almannatryggingakerfinu er að mínu mati mjög stór ástæða fyrir óréttlætinu sem þar á sér stað vegna þess að fólk getur ekki leitað réttar síns ef það skilur engin kerfi. Þá er erfiðara að finna út úr því hver á hvaða rétt í fyrsta lagi og í öðru lagi er auðvitað bara ofboðslega erfitt að laga hlutina.

Ég held að þetta gæti orðið ágætistilraun vegna þess að þetta yrði mælanlegt. Við þekkjum nú þegar þó nokkuð af tölum. Hv. þingmaður nefnir að atvinnuþátttaka eldri borgara sé um 13% ef ég skil rétt, þekki ekki rannsóknir á bak við það hvaðan sú tala kemur. Ég velti fyrir mér hvort hún yrði hærri og hversu mikið hærri hún yrði ef engar skerðingar væru. Hvaða tegund af vinnuafli værum við að leysa úr læðingi. Vegna þess að mikið af eldra fólki getur alveg unnið störf og getur alveg hugsanlega unnið sér inn einhverjar tekjur en gerir það ekki vegna þess að það verða skerðingar. 100 þús. kr. frítekjumark er í samhengi við laun mjög lág tala. (Gripið fram í: Svo ekki sé nú meira sagt.) Svo ekki sé nú meira sagt, eins og hv. þingmaður bendir réttilega á.

Það sem ég hygg alla vega er að þetta yrði meinlaust í allra versta falli. Þetta er ekki dýrt og myndi held ég gefa innsýn, vonandi, inn í það hvernig við myndum taka á sambærilegu vandamáli í framtíðinni, þar sem við erum með hópa þar sem atvinnuþátttaka er lág af öðrum ástæðum í framtíðinni, að hafa þá gert svona tilraunir þegar við vitum að þær eru í allra versta falli meinlausar.