148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[17:04]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst ekkert að því að skoða þetta. Það er vel hægt að velta því fyrir sér hvaða áhrif þetta hefur. Ég held klárlega að það væri gott fyrir samfélagið ef fleiri eldri borgarar gætu unnið. Það er ekki bara spurning um að fá fleiri hendur að borðinu heldur líka spurning um að rjúfa félagslega einangrun og viðhalda líkamlegri hæfni og heilsu miklu lengur. Mig minnir að ákvörðun um 67 ára ellilífeyrisaldur á sínum tíma hafi miðast við ævilíkur á þeim tíma. Þær hafa örugglega aukist um 20 ár. Það er alveg sjálfsagt að endurskoða þessa hluti eftir því sem þjóðin eldist og verður frískari og heilbrigðari. Ég held nú reyndar að það yrðu ofmetin áhrif þessa á meiri atvinnuþátttöku af því að mér sýnist þegar maður lítur á aldurinn 67–70 eða 70–75 og svo uppúr, þá hefur þetta, held ég, dálítið mikið með starfsgetu og hæfni að gera. Ég held að það séu fáir t.d. eftir áttrætt sem geta unnið mikið. En mér finnst sjálfsagt að skoða þetta. Ef hæstv. ráðherra er farinn að tala um að þau muni hlusta á stjórnarandstöðuna og taka við góðum hugmyndum, þá hlýtur einn stjórnarandstöðuþingmaður örugglega hlusta á góðar hugmyndum frá öðrum stjórnarandstöðuþingmanni.