148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[17:13]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þá miklu vinnu sem starfsmenn Stjórnarráðsins hafa lagt á sig til að fullvinna frumvarp til fjárlaga. Þetta er gríðarlega mikið verk sem unnið hefur verið á skömmum tíma og af mikilli vandvirkni.

Ég ætla að fara almennt yfir þau atriði sem ég vil vekja athygli á varðandi þá þætti sem snúa að mennta- og menningarmálum í fjárlagafrumvarpinu. Fjármálaráðherra hefur nú þegar fjallað almennt um frumvarpið og farið heildstætt yfir það. Á þeim stutta tíma sem ég hef gefst ekki færi á að fara í hvern og einn málaflokk heldur mun ég tæpa á helstu þáttum sem tengjast áherslum í sáttmála nýrrar ríkisstjórnar. Sex málefnasvið frumvarpsins falla að hluta eða öllu leyti undir verksvið mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Heildargjöld vegna verkefna árið 2018 eru áætluð 102,7 milljarðar á rekstrargrunni. Bein framlög úr ríkissjóði eru um 90,4 milljarðar en rekstrartekjur vegna þessara verkefna nema um 13,3 milljörðum króna.

Í frumvarpinu aukast útgjöld til verkefna á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytisins um 5,5 milljarða á milli ára, eða sem svarar til 5,6% hækkunar útgjalda þegar tekið er tillit til áhrifa af almennum launa- og verðlagsbreytingum. Þessi hækkuðu framlög til málefnasviða ráðuneytisins endurspegla þau fyrirheit sem gefin eru í sáttmála nýrrar ríkisstjórnar um stórsókn í mennta- og menningarmálum. Aukningin frá síðustu ríkisstjórn til mennta- og menningarmála er mjög mikil, hún nemur um 2,6 milljörðum. Ef við viljum aðeins leika okkur með tölur er viðbótin frá því síðast um 190%.

Öflugt menntakerfi er forsenda framfara og leggur grunninn að áframhaldandi velsæld þjóðarinnar. Því nefni ég fyrst framlög til háskólastigsins sem hækka um 1.250 millj. kr. frá því frumvarpi sem lagt var fram í september. Með þeirri hækkun er ætlunin að efla bæði kennslu og rannsóknir svo bæta megi þjónustu við nemendur, auka vísindastarf og styrkja alþjóðlegt samstarf.

Ég get glöð tekið undir það sem fram kemur í bókun háskólaráðs Háskóla Íslands frá því í gær, að hér sé stigið „áþreifanlegt skref í átt að sambærilegri fjármögnun Háskóla Íslands og háskóla á Norðurlöndum.“ Þannig er stuðlað að því að háskólar á Íslandi standi jafnfætis nágrannaríkjum að gæðum háskólamenntunar og rannsókna. Liður í því að fylgja þessum áherslum er endurskoðun á þeim reiknireglum sem stuðst er við til grundvallar fjármögnun á háskóla- og framhaldsskólastiginu.

Framlög til framhaldsskólastigsins hækka um 400 milljónir króna umfram það sem gert var ráð fyrir í september. Með því er lögð aukin áhersla á að ná markmiðum um fjármögnun háskólastigsins og fylgja eftir breytingum í kjölfar styttingar náms til stúdentsprófs og takast á við þær áskoranir sem við er að etja, þ.e. brotthvarf úr námi, og stíga raunveruleg skref til þess að efla iðn- og verknám í landinu.

Í mennta- og menningarmálaráðuneytinu er þegar hafin vinna við kortlagningu framhaldsskólakerfisins og ítarleg greining á sér nú stað er varðar stöðu og þróun framhaldsskólanna. Þá verður unnin aðgerðaáætlun til að sporna gegn brotthvarfinu, eins og ég minnist á áðan. Sú vinna verður unnin í kjölfar vinnu sem Menntamálastofnun og framhaldsskólarnir hafa þegar unnið við skimun á nemum sem eru í brotthvarfshættu og ástæðu brotthvarfs.

Á sviði menningar og lista er helst að geta tveggja atriða: Framlags til sýningar á náttúruminjum í Perlunni að upphæð 290 millj. kr. Með því er komið til móts við langþráðan draum um að geta sýnt hluta af safnkosti Náttúruminjasafns Íslands. Í annan stað er gerð gangskör í að fjármagna fimm ára aðgerðaáætlun um máltækni fyrir íslensku. Gert er ráð fyrir að áætlunin nái til áranna 2018–2022 og heildarkostnaður vegna hennar geti numið allt að 2,3 milljörðum króna.

Virðulegi forseti. Mig langar aðeins að víkja að tveimur spurningum sem hv. þingmenn nefndu hér áðan, en ég sé að margir eru búnir að biðja um orðið þannig að ég fer kannski yfir þær á eftir.