148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[17:18]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna mörgu af því sem hæstv. ráðherra hefur í hyggju að gera og óska henni heilla í störfum og veit að hún mun gera sitt besta. Ég fagna sérstaklega átaki varðandi máltækni og að Íslendingar reki loksins af sér slyðruorðið varðandi náttúruminjasafn.

Mér er minnisstæður fundur sem ég var á í kosningabaráttunni í Safnahúsinu í Reykjavík þar sem við vorum fulltrúar nokkurra framboða. Þar lýstum við öll yfir miklum áhuga okkar á að afnema virðisaukaskatt á bókum. Þar var fremst í flokki hæstv. menntamálaráðherra, Lilja Alfreðsdóttir, svo jafnvel má tala um að þetta hafi verið hennar hjartans mál. Hún talar um stórsókn í menntamálum og ekki dreg ég í efa vilja til slíks. En ég spyr (Forseti hringir.) hvort virðisaukaskattur á bókum sé, með tilvísun til ljóðs eftir Megas, „stórsóknarfórn“?